Fótbolti

Albert mættur aftur til Flórens og fær nýjan þjálfara í dag

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Albert Guðmundsson verður klár í slaginn þegar Fiorentina mætir Genoa á sunnudag. 
Albert Guðmundsson verður klár í slaginn þegar Fiorentina mætir Genoa á sunnudag.  Getty/Andrea Martini

Albert Guðmundsson er mættur aftur til Ítalíu eftir stutt stopp á Íslandi með viðkomu í dómssal. Hann verður með á æfingu Fiorentina síðdegis, sem nýr þjálfari liðsins mun stýra.

Gazzettan greinir frá því að Paolo Vanoli muni taka við starfi aðalþjálfara eftir að Stefano Pioli var rekinn fyrr í vikunni. 

Vanoli muni skrifa undir samning sem gildir út tímabilið og stýra liðinu í fyrsta sinn á sunnudaginn í fallbaráttuslag gegn öðru Íslendingaliði, Genoa.

Vanoli var þjálfari Torino á síðasta tímabili og þjálfaði Íslendingaliðið Venezia þar áður, hann hefur einnig starfað fyrir Spartak í Moskvu og yngri landslið Ítalíu.

Þetta er ekki eina breytingin hjá Fiorentina þessa dagana því nýr yfirmaður íþróttamála tók einnig við störfum í vikunni, Roberto Goretti fékk stöðuhækkun eftir að fyrrum yfirmaðurinn Daniele Pradé var rekinn.

Báðar þessar breytingar eru auðvitað teknar með afleitt gengi liðsins í huga en Fiorentina hefur ekki unnið leik í ítölsku úrvalsdeildinni, liðið situr í neðsta sæti deildarinnar eftir að hafa gert fjögur jafntefli og tapað sex sinnum.

Liðinu hefur gengið betur í Sambandsdeildinni og vann fyrstu tvo leikina þar, en tapaði svo 2-1 gegn Mainz í gærkvöldi.

Albert Guðmundsson var ekki með í leiknum í gærkvöldi, hann var þá staddur á Íslandi og æfði með pabba sínum, Guðmundi Benediktssyni, á Laugardalsvelli.

Stuðningsmannasíðan ViolaNews, sem flytur fréttir af liði Fiorentina, segir að Albert hafi mætt aftur til Flórens í gærkvöldi og verði með á æfingu liðsins síðdegis í dag, þeirri fyrstu undir stjórn Vanoli. Hann verði svo klár í slaginn gegn Genoa, sem mun einnig spila undir stjórn nýs þjálfara, á sunnudag.


Tengdar fréttir

Reikna með tveggja daga aðalmeðferð í máli Alberts

Aðalmeðferð er hafin í máli knattspyrnumannsins Alberts Guðmundssonar, sem sætir ákæru fyrir nauðgun, í Landsrétti. Samkvæmt dagskrá réttarins er reiknað með að henni ljúki á morgun og því er dóms að vænta innan fjögurra vikna og eins dags. Þinghald er háð fyrir luktum dyrum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×