Menning

Krafa um betri ensku en ís­lensku reyndust mis­tök

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Eiríkur sendi póst á Saffran til að forvitnast út í atvinnuauglýsingu fyrirtækisins. Saffran brást skjótt við og leiðrétti auglýsinguna.
Eiríkur sendi póst á Saffran til að forvitnast út í atvinnuauglýsingu fyrirtækisins. Saffran brást skjótt við og leiðrétti auglýsinguna. Vísir/Lýður/Vilhelm

Veitingastaðurinn Saffran auglýsti nýverið eftir starfsfólki en í auglýsingunni var gerð krafa um betri kunnáttu í ensku en íslensku. Innt eftir svörum um þessar áherslur gekkst Saffran við því að um mistök væri að ræða og leiðréttu auglýsinguna.

Á mánudag birti læknirinn Jorgo Vougiouklakis færslu á Málspjallinu með skjáskoti af starfsauglýsingu fyrir þjónustustarf í Skeifunni þar sem mátti sjá kröfur um tungumálakunnáttu.

„Góð íslenskukunnátta kostur. Mjög góð enskukunnátta skilyrði,“ sagði í skjáskotinu. Þar að auki var íslenskukunnátta ranglega skrifuð í tveimur orðum.

„Mér finnst þetta áhugavert ef línurnar hafa ekki víxlast óvart,“ skrifaði Jorgo.

„Þakka þér fyrir að vera á verði og veita okkur aðhald“

Færslan vakti töluverða athygli og undruðust margir að enskukunnátta væri sett ofar íslenskukunnáttu. Uppgjöf gagnvart hinu ástkæra ylhýra.

Eiríkur Rögnvaldsson, fyrrverandi prófessor og baráttumaður íslenskunnar, ákvað að taka málin í eigin hendur. Hann komst að því að umræddur veitingastaður væri Saffran og skrifaði forsvarsmönnum hans bréf.

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus, kenndi íslenska málfræði við Háskóla Íslands í meira en 30 ár.Vísir/Arnar

„Í starfsauglýsingu frá ykkur segir um tungumálakröfur:

  • Góð íslensku kunnátta kostur
  • Mjög góð enskukunnáta skilyrði

Í ljósi þess að íslenska er opinbert tungumál landsins leikur mér forvitni á að vita hvernig standi á því að meiri kröfur eru gerðar um kunnáttu í ensku en íslensku. Mér finnst það mjög sérkennilegt, svo að ekki sé meira sagt,“ skrifaði hann í bréfinu.

Nokkrum tímum síðar greindi Eiríkur frá því á þræðinum að hann hefði fengið umsvifalaust svar frá Saffran.

„Þakka þér fyrir ábendinguna. Ég er þér hjartanlega sammála. Þetta eru mistök í texta sem við látum lagfæra strax. Þakka þér fyrir að vera á verði og veita okkur aðhald,“ sagði í pósti Saffran.

Sagði Eiríkur hrósvert þegar fólk brygðist skjótt við, í málum sem þessum væri oftast um hugsunarleysi að ræða. Hann nefndi þó að enn ætti eftir að lagfæra stafsetningarvillu auglýsingarinnar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.