Erlent

Til­kynna yngri en 16 ára að reikningum að Face­book og Insta­gram verði lokað

Lovísa Arnardóttir skrifar
Ungmennin geta mótmælt lokuninni séu þau orðin 16 ára með ýmsum hætti.
Ungmennin geta mótmælt lokuninni séu þau orðin 16 ára með ýmsum hætti. Vísir/Getty

Unglingar yngri en 16 ára í Ástralíu hafa nú fengið tilkynningu um að aðgöngum þeirra á Facebook, Instagram og Threads verði lokað vegna banns við notkun samfélagsmiðla fyrir yngri en sextán ára sem tekur gildi í landinu í desember.

Í frétt BBC um málið segir að Meta, sem á vörumerkin þrjú, hafi byrjað að senda notendum sem taldir eru á aldrinum 13 til 15 ára tilkynningar með textaskilaboðum, tölvupósti og skilaboðum í forritunum um að byrjað verði að gera aðganga þeirra óvirka frá 4. desember.

Fyrirtækið biður börnin í tilkynningunni um að uppfæra tengiliðaupplýsingar sínar svo hægt sé að láta þá vita þegar þau uppfylla aldursskilyrði til að opna aðgang. Þau geti, áður en reikningunum er lokað, hlaðið niður myndum, færslum og skilaboðum.

Tekur gildi í desember

Bannið í Ástralíu tekur gildi 10. desember. Það nær til fjölda miðla, þar á meðal TikTok, YouTube, X og Reddit. Samfélagsmiðlar sem ekki gera ráðstafanir til að útiloka yngri en sextán ára eiga yfir höfði sér sektir sem geta numið 50 milljónum ástralskra dala sem samsvarar um fjórum milljörðum íslenskra króna.

Í frétt BBC er haft eftir Anthony Albanese forsætisráðherra Ástralíu að bannið, sem er það fyrsta sinnar tegundar í heiminum, eigi að gera börnum kleift að vera áfram börn. Meta og önnur fyrirtæki eru andvíg aðgerðinni en sögðust myndu fara eftir henni.

Netöryggisstofnun Ástralíu hefur áætlað að um 150.000 Facebook-notendur og 350.000 Instagram-notendur séu á aldrinum 13–15 ára.

Meta segir ungmenni, sem segjast vera nógu gömul til að nota miðlana, geta mótmælt lokuninni með því að taka myndbandssjálfu sem verður notuð í andlitsskönnun til aldursgreiningar. Einnig geti þau lagt fram skilríki eins og ökuskírteini.

Í frétt BBC segir að allar aðferðir til sannprófunar hafi verið prófaðar af breskri vottunarstofnun fyrr á þessu ári, í skýrslu sem unnin var að beiðni ástralska ríkisins. Þótt ACCS hafi sagt að allar aðferðirnar hefðu sína kosti, sagðist stofnunin ekki hafa fundið eina lausn sem hentar öllum.

Með samþykki foreldra

Meta vill sjá lög þar sem yngri en sextán ára þurfa að fá samþykki foreldra áður en þeir hlaða niður samfélagsmiðlaforriti.

Leikjavettvangurinn Roblox er einn þeirra miðla sem eru undanskildir banninu en tilkynnti þó í vikunni að börn yngri en 16 ára muni ekki geta spjallað við ókunnuga fullorðna. Skyldubundin aldursstaðfesting verður tekin upp fyrir aðganga sem nota spjallaðgerðir, fyrst í Ástralíu, Nýja-Sjálandi og Hollandi í desember, og síðan um allan heim frá janúar.

Þeir miðlar sem falla undir samfélagsmiðlabann Ástralíu eru Facebook, Instagram, Kick, Reddit, Snapchat, Threads, TikTok, X (áður Twitter) og YouTube.

Miðlar sem eru undanskildir banninu eru Discord, GitHub, Google Classroom, LEGO Play, Messenger, Roblox, Steam og Steam Chat, WhatsApp og YouTube Kids.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×