Sport

Titilvörn Littlers hefst gegn reynslubolta

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hinn átján ára Luke Littler freistar þess að verja heimsmeistaratitilinn í pílukasti.
Hinn átján ára Luke Littler freistar þess að verja heimsmeistaratitilinn í pílukasti. getty/James Fearn

Heimsmeistarinn Luke Littler mætir Darius Labanauskas í fyrsta leik sínum á HM í pílukasti.

Littler, sem er nýkominn upp í efsta sæti heimslistans, mætir til leiks strax í 1. umferð og etur þar kappi við hinn reynda Labanauskas.

Litáinn er í 95. sæti heimslistans. Hinn 49 ára Labanauskas er fastagestur á HM og komst í átta manna úrslit 2020.

Luke Humphries mætir heimsmeistara ungmenna, Ted Evetts, í 1. umferð. Humphries vann HM 2024 en hann sigraði Littler þá úrslitaleiknum, 7-4.

Littler og Humphries eru ekki á sama kanti í drættinum fyrir HM 2026 og gætu því mæst í úrslitaleik mótsins.

Þrefaldi heimsmeistarinn Michael van Gerwen mætir Mitsuhiko Tatsunami frá Japan í 1. umferðinni. Van Gerwen komst í úrslit HM í fyrra en tapaði fyrir Littler, 7-3.

Fallon Sherrock, eina konan sem hefur unnið leik á HM, dróst gegn Dave Chisnall sem er í 21. sæti heimslistans.

Beau Greaves, sem sigraði Littler á HM ungmenna á dögunum, mætir Daryl Gurney sem situr í 22. sæti heimslistans.

Heimsmeistaramótið í pílukasti hefst 11. desember og lýkur með úrslitaleik 3. janúar. Venju samkvæmt fer mótið fram í Alexandra höllinni í Lundúnum. 

Keppendum á HM hefur verið fjölgað úr 96 í 128 og verðlaunaféð hefur einnig hækkað verulega. Sigurvegarinn fær eina milljón punda í sinn hlut, helmingi meira en Littler fékk fyrir að vinna HM í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×