Framúrskarandi fyrirtæki

„Gæða­stimpill sem ein­fald­lega virkar”

Starri Freyr Jónsson skrifar
Starfsfólk Endurskoðunar Vestfjarða er ánægt með að vera níunda árið í röð á lista Creditinfo yfir Framúrskarandi fyrirtæki. Á myndina vantar tvo starfsmenn.
Starfsfólk Endurskoðunar Vestfjarða er ánægt með að vera níunda árið í röð á lista Creditinfo yfir Framúrskarandi fyrirtæki. Á myndina vantar tvo starfsmenn.

Endurskoðun Vestfjarða var stofnuð árið 2004 í Bolungarvík. Rætur fyrirtækisins má þó rekja til endurskoðunarskrifstofunnar Löggiltir endurskoðendur Vestfjörðum sem sett var á fót árið 1990 og var með starfsstöðvar í Bolungarvík, Ísafirði og á Hólmavík.

Í upphafi nóvember mánaðar, þegar Creditinfo kynnti lista sinn yfir Framúrskarandi fyrirtæki, fékk Endurskoðun Vestfjarða viðurkenningu níunda árið í röð fyrir að vera á umræddum lista. Þau eru eitt af tíu fyrirtækjum á Vestfjörðum sem eru á listanum í ár, þar af eru tvö þeirra staðsett í Bolungarvík.

„Að vera á lista Creditinfo níu ár í röð er náttúrulega ákveðin staðfesting á því að við séum á réttri leið,” segir Elín Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Endurskoðunar Vestfjarða, þegar við bárum undir hana hvað það þýddi að vera níunda árið í röð á listanum. „Þetta skiptir starfsfólkið miklu máli því það er alltaf gaman þegar erfiðisvinna og metnaður eru verðlaunuð. Og jú, við finnum svo sannarlega fyrir auknum áhuga. Viðskiptavinum hefur fjölgað mikið og þeir koma alls staðar að af landinu.”

Bolungarvík á sólríkum og fallegum degi. Bolafjall er í bakgrunni.Mynd/Anton Brink.

Jón Þorgeir Einarsson, löggiltur endurskoðandi og stofnandi fyrirtækisins, tekur í sama streng. „Þessi góði árangur níunda árið í röð segir fólki að rekstur okkar sé traustur og áreiðanlegur, og það skiptir viðskiptavini miklu máli. Vera okkar á lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki hefur líka hjálpað okkur að vaxa en í dag höfum við fjölbreyttan hóp viðskiptavina, bæði hér í fjórðungnum og á höfuðborgarsvæðinu.”

„Við finnum að þessi viðurkenning hvetur okkur áfram,” bætir Bjarki Bjarnason, löggiltur endurskoðandi við. „Þetta er eins konar gæðastimpill sem einfaldlega virkar.”

Að vera á lista Creditinfo níu ár í röð er náttúrulega ákveðin staðfesting á því að við séum á réttri leið.

Þegar talið berst að atvinnulífinu á Vestfjörðum kemur léttur svipur á Elínu. „Horfur eru mjög góðar, jafnvel óvenju góðar. Það hefur verið gaman að fylgjast með fjölbreytninni aukast,” segir hún og nefnir eldisfyrirtæki, Kerecis, Örnu og vaxandi ferðaþjónustu sem dæmi. „Við stöndum á sterkari grunni en oft áður.”

Starfsstöð Endurskoðunar Vestfjarða í Bolungarvík.

Jón rifjar upp fyrstu ár fyrirtækisins. „Ég stofnaði fyrirtækið árið 2004 í Bolungarvík og þá var eiginlega engin flókin framtíðarsýn, heldur bara að veita góða og faglega þjónustu hér heima. Svo þróaðist þetta hratt. Við keyptum rekstur á Ísafirði 2009, síðan annan 2020 og höfum byggt þetta upp skref fyrir skref með góðu fólki.“

Deloitte gerðist hluthafi í Endurskoðun Vestfjarða í ársbyrjun 2010 og segir Jón að samstarfið hafi skipt miklu máli og að það dafni mjög vel. „Samstarf okkar felst meðal annars í því að við fáum afnot af ýmsum hugbúnaði, svo sem uppgjörs- og endurskoðunarkerfi ásamt aðgangi að sérfræðingum og fræðslustarfi. Einnig útvistum við nokkrum verkefnum til Deloitte en það eru í flestum tilvikum sérhæfð verkefni.“

Ísafjörður skarta sínu fegursta.Mynd/Anton Brink.

Þótt Endurskoðun Vestfjarða sé rótgróið fyrirtæki er starfsemin fjölbreytt. „Við sérhæfum okkur ekki í einu sérstöku,” segir Elín. „Við sinnum endurskoðun, ársreikningum, skattskilum, bókhaldi og launavinnslu og það er mikill kraftur í teyminu okkar. Við erum orðin 17 talsins, fjórir karlar og þrettán konur.”

Jón nefnir að tæknibreytingar séu hraðar og um leið spennandi. „Innlestrar á rafrænum og pdf reikningum hafa gjörbreytt bókhaldsfærslum. Við nýtum þau tækifæri.” Hann segir að nýr hugbúnaður frá Eno ehf., sem notar gervigreind í vinnslu, sé á leiðinni inn. „Það á eftir að einfalda vinnuna mikið.”

Endurskoðun Vestfjarða er með starfsstöð á Ísafirði.

Að lokum snúum við okkur að umhverfismálum. „Umhverfisstefnan okkar skiptir okkur miklu,” segir Elín. „Við höfum minnkað pappírsnotkun verulega og stefnum á pappírslausan rekstur.”

Jón bætir við að netnámskeið og fjarfundir hafi sparað bæði tíma og kolefnisspor. „Við erum miklu sjaldnar á ferðinni en áður,“ segir hann að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×