Íslenski boltinn

Jónatan á­fram á Hlíðar­enda: „Var alltaf já­kvæður fyrir því að fram­lengja“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jónatan Ingi Jónsson hefur leikið með Val undanfarin tvö tímabil.
Jónatan Ingi Jónsson hefur leikið með Val undanfarin tvö tímabil. vísir/anton

Kantmaðurinn Jónatan Ingi Jónsson hefur framlengt samning sinn við Val út tímabilið 2029.

Hinn 26 ára Jónatan kom til Vals frá Sogndal í Noregi fyrir tímabilið 2024. Hann hefur spilað 62 deildar- og bikarleiki fyrir Val og skorað 21 mark.

„Ég var alltaf jákvæður fyrir því að framlengja, þrátt fyrir það sem kann að hafa verið skrifað í fjölmiðlum. Þetta er stór dagur fyrir mig og ég hlakka til þess að vera lykilmaður hér að Hlíðarenda næstu árin,“ er haft eftir Jónatan í tilkynningu frá Val.

Í hlaðvarpi sínu, Dr. Football, sagði Hjörvar Hafliðason að Jónatan vildi fara til KR. Jónatan og Björn Steinar Jónsson, formaður knattspyrnudeildar Vals, sögðu hins vegar ekkert hæft í þeim orðrómi í samtali við Vísi.

Talsverðar breytingar hafa orðið hjá Val frá því síðasta tímabili lauk. Srdjan Tufegdzic hætti sem þjálfari Vals og við starfi hans tók Hermann Hreiðarsson.

Þá var Aron Jóhannsson, einn reyndasti leikmaður Vals, leystur undan samningi við félagið á dögunum. Sigurður Egill Lárusson yfirgaf Val sömuleiðis eftir langa veru á Hlíðarenda.  

Valur endaði í 2. sæti í Bestu deildinni á síðasta tímabili og komst í bikarúrslit þar sem liðið tapaði fyrir Vestra, 1-0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×