Fótbolti

Fanndís leggur skóna á hilluna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fanndís Friðriksdóttir fagnar marki sínu á EM 2017 sem er eitt flottasta mark sem Ísland hefur skorað á stórmóti.
Fanndís Friðriksdóttir fagnar marki sínu á EM 2017 sem er eitt flottasta mark sem Ísland hefur skorað á stórmóti. Vísir/Getty

Fanndís Friðriksdóttir gaf það út á samfélagsmiðlum sínum í dag að hún hefði ákveðið að setja fótboltaskóna sína upp á hillu.

Vitað var að Fanndís yrði ekki áfram hjá Val en nú er ljóst að hún fer ekki í annað félag heldur segir þetta gott.

„Takk fyrir mig fótbolti. Sigrar-Töp og allt það en það sem situr eftir er allt fólkið. Þakklát og stolt af ferlinum, tek frelsinu fagnandi,“ skrifaði Fanndís á samfélagsmiðla.

Fanndís hefur verið lengi í hópi bestu knattspyrnukvenna landsins og er aðeins ein af þrettán sem hefur náð að spila hundrað A-landsleiki fyrir Ísland.

Fanndís skoraði 17 mörk í 110 landsleikjum á ferlinum. Hún er sú níunda leikjahæsta og sú níunda markahæsta í sögunni.

Fanndís lék síðustu sjö ár tímabilsins í Val, alls sex tímabil en hún var í barneignafríi eitt sumarið.  Lengst af lék hún þó með Breiðabliki auk þess að spila sem atvinnumaður í Noregi, Frakklandi og í Ástralíu.

Fanndís var með 8 mörk í 23 leikjum í Bestu deild kvenna síðasta sumar. Hún endar því ferilinn sinn með 129 mörk í 278 leikjum í efstu deild.  Hún varð fimm sinnum Íslandsmeistari og þrisvar sinnum bikarmeistari á ferlinum. 

Fanndís er í ellefta sæti yfir markahæstu leikmenn efstu deildar kvenna frá upphafi en hún er sú þriðja markahæsta hjá Blikum í efstu deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×