Lífið

Hvert er burðar­þol ís­lensks al­mennings fyrir kjaft­æði?

Sif Sigmarsdóttir skrifar
Sif Sigmarsdóttir er með vikulega pistla á Vísi.
Sif Sigmarsdóttir er með vikulega pistla á Vísi. Vísir/Sara Rut

Í fyrra fóru fram sveitarstjórnarkosningar í Bretlandi. Við upphaf talningar blasti við að Íhaldsflokkurinn hafði beðið afhroð. Það aftraði þó ekki flokksjálkum frá því að halda öðru fram í kosningasjónvarpinu.

Þegar endurtalning stóð yfir í kosningu til „borgarstjóra“ West-Midlands sýslu birtist ráðherra flokksins á skjánum og tilkynnti áhorfendum, jafn sigrihrósandi og maður með þrjá rétta í lottóinu, að frambjóðandi flokksins hefði „annað hvort sigrað eða næstum því sigrað“ kosningarnar.

Niðurstaðan lá fyrir skömmu síðar: Hann „sigraði næstum því“.

Á mannamáli kallast það hins vegar að tapa.

Hlusta má á pistilinn í spilaranum að neðan. 

Djöfulsins, helvítis, andskotans pakk

Orð forseta Alþingis, Þórunnar Sveinbjarnadóttur, um þingmenn stjórnarandstöðunnar vöktu athygli í síðustu viku.

„Ég er komin með nóg. Djöfulsins, helvítis, andskotans pakk,“ sagði Þórunn á leið úr þingsal.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis.Vísir/Anton Brink

Þórunn baðst afsökunar á ummælum sínum.

Guðrúnu Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, gaf lítið fyrir afsökunarbeiðnina. „Ef ég haga mér eins og hálfviti einhvers staðar, sem kjörinn fulltrúi, er ég að kasta rýrð á Alþingi og þá stofnun sem ég hef verið kjörin til að sinna.“

Orð Guðrúnar vekja upp spurningu: Er það raunverulega forseti Alþingis sem hagar sér eins og hálfviti?

Prófessor í póstmódernískri merkingarfræði

Nýverið birtist á Vísi aðsend grein eftir þingmann Sjálfstæðisflokksins, Vilhjálm Árnason, þar sem hann gagnrýndi hækkun vörugjalda á bifreiðar sem tekur gildi um áramót.

En í stað þess að færa rök fyrir skoðun sinni ákvað Vilhjálmur að bregða sér í líki prófessors í póstmódernískri merkingarfræði og gefa gjöldunum einfaldlega nýtt nafn.

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.Vísir/Vilhelm

Má ég kynna: „Barnaskatt Kristrúnar Frostadóttur.“

Aðeins Kölski gæti stutt tilhögun sem sögð var „bein atlaga að börnum“ sem „drægi úr íþróttaiðkun“ og „öryggi“ þeirra.

Skák og mát.

Refsiaðgerð Satans gegn hinum syndlausu

„Hvað felst í nafni?“ ritaði Shakespeare í Rómeó og Júlíu. „Það sem nefnt er rós hefði jafn ljúfan ilm með öðru nafni.“

Vörugjald á bifreiðar er ekki annað en vörugjald á bifreiðar sama hvort við köllum það „barnaskatt Kristrúnar Frostadóttur“ eða „refsiaðgerð Satans gegn hinum syndlausu“.

Sú bullvæðing sem á sér stað á sviði stjórnmálanna, og sést glögglega í grein Vilhjálms, er ekki aðeins hjákátleg. Hún er einnig hættuleg.

Í besta falli bull, í versta falli afbökun

Árið 1970 varaði stjórnmálafræðingurinn Giovanni Sartori við svo kallaðri „hugtakaútþenslu“, þar sem orð misstu merkingu sína við það að notkun þeirra færðist yfir á fleiri svið. Má nefna sem dæmi hversdagslega notkun á orðinu „narsisisti“, sem fór úr því að vera lýsing á manneskju með persónuleikaröskun yfir í níðyrði yfir hvern þann sem fer í taugarnar á okkur. Fleiri dæmi eru notkun orðsins „ofbeldi“ í merkingunni „orð sem særa“ og orðsins „áfall“ um minnstu uppákomu.

Sagði hann hættuna við slíka útþenslu þá, að hún hamlaði samskiptum.

Í haust sendu helstu náttúruverndarsamtök landsins Alþingi áskorun þar sem þess var krafist að fellt yrði á brott úr lögum um fiskeldi sérstakt ákvæði um „burðarþolsmat“, sem komið var á árið 2014.

Áskorunin fékk litla athygli. Ekki að furða. Því hver skilur hvað orðið „burðarþolsmat“ þýðir í þessu samhengi?

Í hugum flestra merkir orðið burðarþol „hæfileikinn til að standast þunga“. Snjall verkfræðingur gæti til að mynda reiknað nokkuð áreiðanlega út burðarþol brúar.

Ekki er þó að sjá að burðarþol í fiskeldi hafi nokkuð með verkfræðilegan þunga að gera.

Halda náttúruverndarsamtökin því fram að „burðarþolsmat“ sé „hjáleið“ framhjá vatnalögum sem heimili „sjókvíaeldisfyrirtækjunum að láta allt skólp frá iðnaðarstarfseminni renna óhreinsað í sjóinn: lífrænan úrgang, fóðurleifar, örplast, lyf, skordýraeitur og þungmálma“.

Svo virðist sem orðið „burðarþol“ í fiskeldi sé í besta falli bull, í versta falli afbökun sem ætlað er að gefa umdeildri atvinnustarfsemi traustvekjandi yfirbragð.

Ógn við lýðræðið

Sá sem „sigrar næstum því“ tapar. „Barnaskattur Kristrúnar Frostadóttur“ er vörugjald. Við reiknum ekki burt sóðaskap í fjörðum landsins með sama hætti og við reiknum út hvernig koma megi í veg fyrir að brú hrynji.

Bullvæðing stjórnmálanna er ógn við lýðræðið. Hvernig á almenningur að taka þátt í samtali um stefnu landsins þegar kjörnir fulltrúar tjá sig með sýndarrökum, útúrsnúningum og bulli?

Sjaldan hafa verið mælt sannari orð á Alþingi með jafnhnitmiðuðum hætti og formælingar Þórunnar Sveinbjarnardóttur.

„Ég er komin með nóg.“ Eruð þið komin með nóg?

Hvert er burðarþol íslensks almennings fyrir kjaftæði?


Tengdar fréttir

Barnaskattur Kristrúnar Frostadóttur

Skattagleði ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur er komin á það stig að hún beinlínis hamlar þátttöku barna í íþróttum. Þetta er afleiðing stefnu sem byggir á misskilningi, rangfærslum og þeirri hættulegu hugmynd að hægt sé að skattleggja sig út úr öllum vandamálum.

„Djöfulsins, helvítis, andskotans pakk“

Svo virðist sem fokið hafi í Þórunni Sveinbjarnardóttur, forseta Alþingis, á þingfundi í dag. Þingmenn stjórnarandstöðunnar stigu í stríðum straumi í ræðustól til þess að gagnrýna Eyjólf Ármannsson innviðaráðherra og samgönguáætlun hans, undir liðnum fundarstjórn forseta. „Ég er komin með nóg. Djöfulsins, helvítis, andskotans pakk,“ heyrðist Þórunn segja eftir að hafa gert tíu mínútna hlé á þingfundi.

Bað þingheim afsökunar eftir ákall frá stjórnarandstöðu

Þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar kölluðu eftir því að Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis, myndi biðja Alþingi formlega afsökunar vegna ummæla sem hún lét falla í þingsal í síðustu viku. Þingflokksformennirnir nýttu tækifærið til að kalla eftir afsökunarbeiðni Þórunnar við upphaf þingfundar í morgun. Þórunn brást í kjölfarið við með því að biðjast afsökunar.

Hanna Katrín boðar sjókvíaeldi í Mjóafirði

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra hefur nú kallað eftir því að Hafrannsóknarstofnun geri burðarþolsmat í Mjóafirði og tillögur að eldissvæðum í firðinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.