Tónlist

Prikið vekur at­hygli út fyrir land­steinana

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Geoffrey Þ. Huntingdon-Williams er stofnandi og eini starfsmaður útgáfunnar Sticky Records sem er farin að vekja athygli erlendis.
Geoffrey Þ. Huntingdon-Williams er stofnandi og eini starfsmaður útgáfunnar Sticky Records sem er farin að vekja athygli erlendis. Vísir/Ívar Fannar

Sticky Records, plötuútgáfa Priksins, fékk hvatningaverðlaun STEF í byrjun mánaðar og er nú farin að vekja athygli utan landsteinanna fyrir útgáfustefnu sína. Blaðamaður tónlistarsíðunnar Pigeons & Planes veltir því fyrir sér hvort Sticky sé framtíð útópísks tónlistariðnaðar.

Prikið hefur lengi verið heimili íslensks hipphopps og hóf að styðja beint við íslenskt tónlistarfólk upp úr aldamótum, til að mynda plötuna Stelpur & Chill. Árið 2016 var stofnuð plötuútgáfan Sticky en stofnandi hennar og eini starfsmaður er Geoffrey Þ. Huntingdon-Williams, sem er jafnframt meðeigandi Priksins.

Sticky vinnur undir svokallaðri „no-master“-stefnu sem þýðir að yfirlýst markmið er aldrei að útgáfan græði á tónlistinni heldur að listafólk njóti góðs af öllum hagnaði sem myndast. Fyrsta platan frá útgáfunni var Sautjándi Nóvember eftir Emmsjé Gauta og síðan hafa komið út Ínótt með Aroni Can, Joey með Joey Christ og Bushido með Birni auk margra annarra. Nýjustu listamenn Sticky eru hin upprennandi Alaska1867, Kusk og Óviti.

Á Degi íslenskrar tónlistar 1. desember síðastliðinn hlaut útgáfan svo hvatningarverðlaun STEF í Hörpu fyrir að vera heimili íslenskrar grasrótar og hafa veitt nýrri bylgju íslenskrar hipphopptónlistar öflugt brautargengi.

„Framtíð útópísks tónlistariðnaðar“

En það er ekki eina viðurkenningin sem útgáfan hefur hlotið upp á síðkastið. Tia Ho, blaðamaður tónlistarsíðunnar Pigeons and Planes sem er þekkt fyrir að uppgötva gimsteina í grasrótinni, kom til Íslands í nóvember til að fylgjast með Airwaves og kynntist þá Sticky.

Ho lýsir því í umfjöllun Pigeons & Planes að gestir Airwaves hafi ítrekað bent henni á útgáfuna og tók hún viðtal við Geoffrey um hugmyndafræði útgáfunnar og aðdraganda hennar. 

Í ljósi háværra krafa bæði tónlistarmanna og aðdáanda um endurbætur á bransanum veltir Ho því fyrir sér hvort Sticky sé „framtíð útópísks tónlistariðnaðar“.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.