Fótbolti

Freyr pirraður eftir rautt spjald á erfiðu kvöldi

Sindri Sverrisson skrifar
Freyr Alexandersson var alls ekki sáttur á leiknum við Fenerbahce í kvöld.
Freyr Alexandersson var alls ekki sáttur á leiknum við Fenerbahce í kvöld. Getty/Oguz Yeter

Lærisveinar Freys Alexanderssonar í Brann urðu að sætta sig við 4-0 skell gegn tyrkneska stórliðinu Fenerbahce í Noregi í kvöld, í Evrópudeildinni í fótbolta, eftir að hafa verið manni færri stóran hluta leiksins.

Freyr fékk að líta gula spjaldið fyrir mótmæli sín þegar leikmaður hans, Eivind Helland, var rekinn af velli á 18. mínútu en hann þótti hafa brotið af sér sem aftasti maður.

Gestirnir frá Tyrklandi voru þá þegar komnir í 1-0 og komust í 3-0 áður en fyrri hálfleik var lokið. Brann tapaði að lokum 4-0 en liðið er án Sævars Atla Magnússonar og Eggerts Arons Guðmundssonar vegna meiðsla.

Daníel Tristan Guðjohnsen lék síðustu tíu mínúturnar fyrir Malmö sem náði að skora í uppbótartíma en tapaði 2-1, gegn Porto í Portúgal.

Malmö er því enn aðeins með eitt stig í þriðja neðsta sæti, nú þegar tvær umferðir eru eftir, en Brann á mun betri von um að komast áfram í útsláttarkeppnina og er með átta stig í 22. sæti. Efstu 24 liðin komast áfram.

Sverrir Ingi Ingason stóð vaktina í vörn Panathinaikos sem fékk ekki á sig mark gegn Viktoria Plzen, í 0-0 jafntefli. Gestirnir frá Tékklandi misstu Václav Jemelka af velli með rautt spjald strax á 32. mínútu en náðu þó í stig.

Aston Villa vann 2-1 útisigur gegn Basel með mörkum frá Youri Tielemans og Evann Guessand, og er eitt þriggja liða í efstu sætunum með 15 stig, ásamt Lyon og Midtjylland með Elías Rafn Ólafsson innanborðs.

Öruggt hjá Palace í Sambandsdeildinni

Í Sambandsdeildinni vann Crystal Palace 3-0 útisigur gegn Shelbourne á Írlandi. Christantus Uche, Edward Nketiah og Yéremy Pino skoruðu mörkin.

Gísli Gottskálk Þórðarson er frá keppni vegna meiðsla og missti af 1-1 jafntefli Lech Poznan og Mainz, og Kjartan Már Kjartansson var ekki með Aberdeen sem tapaði 1-0 á heimavelli gegn Strasbourg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×