Salah lagði upp í endurkomunni en Ekitike sá um mörkin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hugo Ekitike skoraði tvö mörk fyrir Liverpool á móti Brighton í dag.
Hugo Ekitike skoraði tvö mörk fyrir Liverpool á móti Brighton í dag. EPA/ADAM VAUGHAN

Liverpool landaði langþráðum sigri á Anfield í ensku úrvalsdeildinni í dag þegar liðið vann 2-0 sigur á Brighton & Hove Albion.

Mohamed Salah kom inn í hópinn og kom líka snemma inn á sem varamaður í fyrri hálfleiknum. Salah lagði upp mark en hetja var Frakkinn Hugo Ekitike sem skoraði tvö mörk.

Liverpool kláraði dæmið í dag en mátti líka þakka fyrir að fá ekki á sig mark. Brighton fékk þrjú mjög góð færi en nýtti þau ekki.

Mohamed Salah skoraði ekki þrátt fyrir nokkrar tilraunir liðsfélaganna til að finna hann í leiknum og þar á meðal var algjört dauðafæri á lokamínútunum.

Þetta var fyrsti heimasigur Liverpool í deildinni síðan 1. nóvember en liðið hafði leikið þrjá leiki í röð á Anfield í öllum keppnum án þess að vinna.

Sigurinn skilaði Liverpool upp fyrir Manchester United og upp í sjötta sæti deildarinnar en United-menn eiga inni leik á mánudagskvöldið.

Liverpool hefur nú unnið tvo leiki í röð eftir útisigur á Internazionale í Meistaradeildinni í vikunni. Þetta ætti að létta aðeins á pressunni á Arne Slot og lærisveinum hans.

Hugo Ekitike var fljótur að komast á blað en hann kom Liverpool í 1-0 eftir aðeins 46 sekúndna leik. Fljótasta markið í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð.

Joe Gomez lagði upp markið fyrir Ekitike en þurfti síðan að fara meiddur af velli á 26. mínútu. Arne Slot ákvað þá að skipta Salah inn og færa Dominik Szoboszlai aftur í hægri bakvörðinn.

Liverpool-menn fengu færi til að bæta við mörkum en næsta mark kom þó ekki fyrr en á 60. mínútu þegar Ekitike skallaði inn hornspyrnu Salah.

Ekitike er kominn með sjö mörk í fimmtán deildarleikjum á sínu fyrsta tímabili með Liverpool.

Salah átti þarna beinan þátt í sínu fyrsta marki síðan, í sigri á Aston Villa 1. nóvember, sem var jafnframt síðasti deildarsigur Liverpool á Anfield.

Þetta er síðasti leikur Salah fyrir Afríkukeppnina en svo þarf að koma í ljós hvort að hann verður seldur frá Liverpool áður en hann kemur til baka þaðan.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira