Fótbolti

Emelía valin efnilegust hjá danska toppliðinu: „Ein­stök gleðisprengja“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska knattspyrnukonan Emelía Óskarsdóttir er komin til baka eftir erfið meiðsli og fékk flott verðlaun hjá félaginu sínu, HB Köge.
Íslenska knattspyrnukonan Emelía Óskarsdóttir er komin til baka eftir erfið meiðsli og fékk flott verðlaun hjá félaginu sínu, HB Köge. @emeliaoskarsdottir

Íslenska knattspyrnukonan Emelía Óskarsdóttir var á dögunum valin efnilegasti leikmaður tímabilsins hjá HB Köge, einu sterkasta fótboltaliði Danmerkur.

Emelía er nítján ára gömul og hefur þegar gengið í gegnum mikið á síðasta árinu. Hún hefur komið sterk til baka úr erfiðum meiðslum en hún var fjarverandi í rúmt ár eftir að hún sleit krossband í ágúst í fyrra.

Emelía hefur skorað níu mörk í 12 leikjum eftir endurkomuna en HB Köge er með þriggja stiga forystu í dönsku titilbaráttunni ásamt því að vera komið í undanúrslit bikarsins.

Grótta vekur athygli á verðlaunum Emelíu á miðlum sínum en Emelía er uppalin í Gróttu.

Emelía fékk líka fallega umsögn frá Jonas Nielsen, yfirmanni fótboltamála hjá HB Köge, þegar hann afhenti henni þessi flottu verðlaun.

„Verðlaunin eru fyrir meira heldur en bara það sem hún hefur afrekað á vellinum. Emelía er einstök gleðisprengja þar sem orkan hennar og jákvæðni hafa smitandi áhrif í klefanum. Þannig er þetta á hverjum einasta degi. Sú staðreynd að henni hafi tekist að halda sér í góðu skapi þrátt fyrir að vera meidd í rúmt ár segir allt sem segja þarf um hana sem manneskju,” sagði Jonas Nielsen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×