Fótbolti

Fótboltamaður skotinn til bana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Pineida var leikmaður Barcelona SC í Ekvador en hér sést hann með fyrirliðabandið í leik með liðinu.
Mario Pineida var leikmaður Barcelona SC í Ekvador en hér sést hann með fyrirliðabandið í leik með liðinu. Getty/Franklin Jacome/

Ekvadorska lögreglan tilkynnti á miðvikudag að fótboltamaðurinn Mario Pineida hefði verið skotinn til bana.

Pineida var 33 ára varnarmaður Barcelona de Guayaquil og þetta virðist hafa verið skipulögð árás en ofbeldi eykst í landinu þessi misserin. Pineida var fyrirliði liðsins sem sem ber sama nafn og spænska stórliðið.

Annar einstaklingur, sem lögreglan hefur ekki nafngreint, lést einnig í atvikinu og sá þriðji særðist.

Innanríkisráðuneyti Ekvador staðfesti andlát Pineida án þess að gefa frekari upplýsingar. Barcelona de Guayaquil sagði í yfirlýsingu að stuðningsmenn félagsins syrgðu andlát Pineida.

Pineida hóf atvinnumannaferil sinn hjá Independiente del Valle þar sem hann lék frá 2010 til 2015. Hann gekk síðan til liðs við félagið í strandborginni Guayaquil árið 2016 og vann þar tvo deildartitla. Varnarmaðurinn lék einnig stuttlega með brasilíska liðinu Fluminense árið 2022.

Ekvörskir fjölmiðlar greindu frá því að atvikið hafi átt sér stað á Samanes-svæðinu í norðurhluta Guayaquil, sem er 265 kílómetra suðvestur af höfuðborginni Quito.

Búist er við að þetta ár verði það ofbeldisfyllsta í sögu Ekvador með yfir níu þúsund morð, samkvæmt ekvadorsku eftirlitsstofnuninni með skipulagðri glæpastarfsemi. Sú tala var 7.063 ofbeldisfull dauðsföll á síðasta ári og þáverandi metfjöldi 8.248 árið 2023.

Daniel Noboa forseti hefur heitið því að berjast gegn glæpasamtökum sem hafa aukið starfsemi sína á ekvadorsku yfirráðasvæði í tengslum við alþjóðlega fíkniefnahringi.

Í nóvember lést sextán ára knattspyrnumaður frá Independiente del Valle af völdum flækingskúlu einnig í Guayaquil. Tveimur mánuðum fyrr létust Maicol Valencia og Leandro Yépez, báðir leikmenn Exapromo Costa, og Jonathan González, leikmaður 22 de Junio, af völdum skotsára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×