Lífið

„Ég hugsa til þín á hverjum einasta degi“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jóhannes minnist dóttur sinnar með bréfum til hennar tvisvar á ári. Á afmælisdaginn og dánardaginn.
Jóhannes minnist dóttur sinnar með bréfum til hennar tvisvar á ári. Á afmælisdaginn og dánardaginn.

Jóhannes Kr. Kristjánsson fjölmiðlamaður segir að það nísti hjarta hans að sjá fréttir um hve mörg ungmenni deyi á ári hverju vegna ofneyslu. Sigrún Mjöll dóttir hans lést af slíkum völdum fyrir rúmum fimmtán árum. Jóhannes safnar minningum um dóttur sína fyrir hlaðvarpsþátt sem hann vinnur að.

Sigrún Mjöll hefði orðið 33 ára í dag en hún var aðeins sautján ára þegar hún lést. Jóhannes, sem hefur komið víða við á löngum fjölmiðlaferli, skrifar bréf til látinnar dóttur sinnar og birtir á Facebook.

„Ég hugsa til þín á hverjum einasta degi og stundum oft á dag. Það er svo ótal margt sem minnir mig á þig og það eru langoftast góðar minningar sem ylja manni og ég brosi. Stundum koma stundir þar sem minning kallar fram sorgina og einstaka sinnum græt ég þegar ég hugsa til þín elsku stelpan mín. Það er enginn ofsafenginn grátur heldur tár sem koma af minnsta tilefni við aðstæður þar sem minningin um þig verður svo sterk og falleg. Og mér líður betur eftir,“ segir Jóhannes.

Hann segir sorgina verða bærilegri með hverju árinu, sem þýði þó alls ekki að hann hugsi minna til hennar.

„Ég held einfaldlega að ég læri meira á lífið á hverjum degi, þroskist aðeins meira með hverju árinu og kannski það mikilvægasta - í lífinu mínu er svo mikil fegurð sem byggir á fólkinu mínu og fólkinu sem ég umgengst hvað mest. Ég hef nefnilega lært að umkringja mig fólki sem gefur af sér til baka því ég reyni að gefa sem mest af mér - sem að þú gerðir einmitt svo vel á þínum bestu stundum.“

Hann segir það nísta hjarta sitt að sjá fréttir af andlátum ungmenna vegna ofneyslu ár eftir ár.

„Ég tek hverja slíka fregn inn á mig og stundum sendi ég aðstandendum þess sem deyr stutt skilaboð þar sem ég reyni að hughreysta því ég veit því miður hvað fjölskyldan sem stendur eftir er að ganga í gegnum. Ekkert er sárara í veröldinni en að missa barn og það getur enginn skilið nema að upplifa það.“

Jóhannes hefur síðustu vikur unnið að hlaðvarpsþætti Á vettvangi um dóttur sína sem til stendur að birta á nýju ári.

„Það hefur verið erfitt að vinna þáttinn en á sama tíma mjög gefandi því ég veit að hann mun hreyfa við fólki. Í þættinum kafa ég ofan í sjálfan mig og tala við fólk sem þekkti þig. Ég er líka byrjaður að hafa samband við ástvini ungs fólks sem hefur látist vegna ofneyslu frá árinu sem þú lést - 2010. Markmið mitt er að komast í samband við ástvini allra sem hafa látist frá 2010 sem voru yngri en 30 ára þegar þeir létust vegna ofneyslu. Ég ætla að biðja það fólk að hafa samband við mig í gegnum netfangið mitt; johanneskr@rme.is.“

Hann óskar Sissu sinni til hamingju með 33 ára afmælið.

„Þegar ég skrifa þessa afmæliskveðju sé ég þig fyrir mér sem fallega unga konu, með börn, í draumastarfinu þínu og með ástríkan eiginmann þér við hlið. Segi þér betur frá því í þættinum á næsta ári.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.