Lífið

Sau­tján ára Glúmur leigði bíl og leitaði Bardot á frönsku rivíerunni

Jón Þór Stefánsson skrifar
Glúmur Baldvinsson fann ekki Bardot í Saint Tropez, né annars staðar á frönsku ríverunni.
Glúmur Baldvinsson fann ekki Bardot í Saint Tropez, né annars staðar á frönsku ríverunni.

Glúmur Baldvinsson, stjórnmálafræðingur og fyrrverandi frambjóðandi Frjálslynda lýðræðisflokksins, minnist frönsku leikkonunnar og dýraverndunarsinnans Brigitte Bardot, sem lést nú á dögunum, í færslu á Facebook. Þar minnist hann þess þegar hann, sem unglingur, leitaði kvikmyndastjörnunnar um frönsku rivíeruna.

„Þegar ég var lítill var ég um skeið, langt skeið, skotinn í Brigitte Bardot. Svo þegar ég var sautján sannfærði ég vin minn í Verzló, Magga Bern, sumarið 1985 að leigja bíl í Lúxemborg og aka niður eða suður til frönsku riverunnar - nánar tiltekið Saint Tropez í von um að finna hana. Því þar bjó hún og sögð mesti dýravinur í heimi. Þar sem ég elska flestar dýrategundir - fyrir utan mannskepnuna ofl - taldi ég mig eiga sjens á að sjarmera og sannfæra hana,“ skrifar Glúmur, en umrædd leit virðist hafa gengið brösulega.

„Svo við rennum í hlað við ströndina í St. Tropez. Þar sem ég hafði ekki nákvæmt heimilisfang ákvað ég að ganga um ströndina og bara finna hana undir sólhlíf. Það gekk ekki vel. Við gengum um nektarströnd fulla af forljótu eldgömlu fólki við grafarbakkann svo ég gafst upp og fann upp nýtt plan. Sumsé að skanna ströndina alla frá Monaco í austri til Montpellier í vestri.“

Glúmur uppgötvaði á einhverjum tímapunkti í þessu ferðalagi sínu að hann hefði læst bíllykilinn í skottinu.

„Nú voru góð ráð dýr. Ég fann stóran þýskan mann vitandi að þaðan koma bestu verkfræðingar álfunnar og bað um hjálp. Hans svar á bjagaðri ensku: Kleine jung man. You got a brain and two hands? Richtich? Og svo fór hann. Svo ég og Maggi urðum strandaglópar í hræðilegu hjólhýsi umkringdir nöktum þýskum og breskum gamlingjum næstu tvo daga eða þar til þorpið opnaði aftur eftir helgi og ég fór að hugsa um komast útúr þessu helvíti og braut allar rúður í bílnum fann lykillinn og ók norður til Lúxemborgar. Skilaði bílnum og borgaði reikninginn. Með hjálp afa.“

Glúmur segir að í kjölfarið hafi hann áttað sig á því að Bardot, sem mun hafa verið fimmtug um þær mundir, væri líklega of gömul fyrir sig.

„En nú heyri ég að konan sem missti af mér ungum sé horfin á brott. Blessuð sé minning kyntáknsins Brigette Bardot. Kynþokki hennar barst alla leið til Barnaskóla Ísafjarðar. Geri aðrar betur. Mun seint gleyma þessum næstum því kynnum okkar. Mais moi, je t'taime encore!“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.