Sport

Ander­son henti Van Gerwen úr leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gary Anderson hefur gert það gott á HM í pílukasti.
Gary Anderson hefur gert það gott á HM í pílukasti. getty/Steven Paston

Gary Anderson, Gian van Veen og Luke Humphries tryggðu sér sæti í átta manna úrslitum á heimsmeistaramótinu í pílukasti í kvöld.

Mikil eftirvænting ríkti fyrir viðureign Andersons og Michaels van Gerwen. Þetta var í fyrsta sinn sem þeir mætast á HM síðan 2019.

Anderson byrjaði betur og vann fyrstu tvö settin. Van Gerwen minnkaði muninn í 2-1 með því að vinna þriðja settið en Anderson vann næstu tvo og leikinn, 4-1.

Hinn 55 ára Anderson hefur spilað vel á HM og er kominn í átta manna úrslit í fyrsta sinn í fjögur ár. Í átta manna úrslitunum á nýársdag mætir Anderson nýliðanum Justin Hood sem vann ellefta mann heimslistans, Josh Rock, fyrr í dag.

Hinn 23 ára Van Veen, sem situr í 10. sæti heimslistans og er heimsmeistari ungmenna, vann 4-1 sigur á Charlie Manby sem hafði komið verulega á óvart á HM.

Í lokaleik kvöldsins vann svo heimsmeistarinn frá 2024, Humphries, Kevin Doets, 4-1. Hollendingurinn vann fyrsta settið en það kveikti í þeim enska sem vann næstu fjögur og tryggði sér sæti í átta manna úrslitum þar sem hann mætir Van Veen.

Humphries var með 103,07 í meðaltal gegn Doets og með frábæran 52 prósent árangur í útskotunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×