Sport

Dæmd úr leik vegna skó­sóla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anna Odine Ström strunsaði í burtu eftir að hún var dæmd úr leik og ræddi ekki við fjölmiöla. 
Anna Odine Ström strunsaði í burtu eftir að hún var dæmd úr leik og ræddi ekki við fjölmiöla.  Getty/Christian Bruna

Skíðastökkvarinn Anna Odine Strøm var dæmd úr leik á alþjóðlegu móti vegna skósóla sem uppfyllti ekki kröfur Alþjóðaskíðasambandsins, FIS.

Fjórum klukkustundum eftir að keppni lauk varð ljóst að Anna Odine Strøm hefði verið dæmd úr leik í stórpallakeppninni á gamlárskvöld. Hún hafnaði upphaflega í ellefta sæti.

„Við eftirlit eftir stökkið kom í ljós að hún var með aukainnlegg í sokknum. Samkvæmt reglugerðinni er aukabúnaður ekki leyfður, eins og í þessu tilfelli. Þetta er ástæðan fyrir því að hún er nú dæmd úr leik,“ útskýrði Sandro Pertile, keppnisstjóri hjá Alþjóða skíða- og snjóbrettasambandinu, á blaðamannafundi.

„Þetta er brot á búnaðarreglum, því fær hún einnig gult spjald,“ sagði Pertile enn fremur.

Ström var í búnaðareftirliti í rúman hálftíma áður en hún hljóp fram hjá blaðamannasvæðinu án þess að segja orð.

„Miðað við það sem sagt var í klefanum kemur þetta ekki svo á óvart,“ sagði Christian Meyer landsliðsþjálfari við NRK.

Málið snýst um að Anna Odine Ström er með skakkar mjaðmir, sem hún hefur leiðrétt með því að bæta einum sentímetra í annan skóinn, að sögn landsliðsstjórans.

„Anna Odine meiddist í Engelberg árið 2023. Við teljum að hún hafi meiðst vegna þess að það er munur á vinstri og hægri fæti. Þess vegna höfum við byggt upp hægri fótinn svo þeir séu í jafnvægi,“ sagði Meyer.

Skósólinn veldur því að hámarkshæðin fer yfir mörkin um nákvæmlega einn sentímetra og FIS rannsakaði atvikið sem reglubrot.

Keppnisstjórinn Pertile staðfestir að þeir hafi að lokum fengið gögn um hæðarmuninn á fótum Strøm.

„Við tilkynntum þjálfurunum í Falun, „ef einhverjir keppendur nota tæknilegan aukabúnað verða þeir að láta okkur vita“. Okkur var gert viðvart um þetta eftir eftirlit dagsins. Eftir eftirlitið fengum við læknaskýrsluna. Næstu klukkustundir munum við fara yfir hana,“ sagði Pertile NRK.

Þegar Meyer, skíðastökkþjálfari, er spurður út í ummæli Remen Evensen er hann að mestu leyti sammála.

„FIS telur að við hefðum átt að spyrja þá fyrst. Við hefðum átt að gera það og það var heimskulegt að við gerðum það ekki,“ sagði Meyer en hvers vegna létu þau ekki vita?

„Við tókum því sem gefnum hlut. Við héldum að það væri í lagi, þar sem við gerðum það af læknisfræðilegum ástæðum. Við höfum tekið nákvæmar mælingar á líkamanum, svo þetta er staðfest. En við hefðum átt að senda inn umsókn. Það er of slakt af okkur,“ viðurkennir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×