Enski boltinn

Lík­legast að Chelsea ráði stjóra Strass­borg

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liam Rosenior hefur verið að gera góða hluti með franska félagið Strassborg.
Liam Rosenior hefur verið að gera góða hluti með franska félagið Strassborg. Getty/Ross Parker

Liam Rosenior, knattspyrnustjóri franska liðsins Strassborg, er talinn líklegastur til að taka við starfi Enzo Maresca hjá Chelsea.

Maresca, 45 ára, fyrrverandi stjóri Leicester, lét af störfum sem aðalþjálfari Chelsea í dag vegna ágreinings við stjórn og eigendur félagsins.

Leitin að arftaka Ítalans er hafin og er Englendingurinn Rosenior talinn líklegastur samkvæmt enskum fjölmiðlum, þótt heimildarmenn hafi lagt áherslu á að aðrir kandídatar séu einnig til skoðunar.

Núverandi vinnuveitendur Roseniors eru í eigu fjárfestingafélagsins BlueCo, hópsins sem var stofnaður til að kaupa Chelsea árið 2022.

Hinn 41 árs gamli Rosenior, sem áður stýrði Hull, nýtur verulegs stuðnings manna innan Chelsea og er talið að verið sé að skoða kandídata til að taka við af honum hjá Strassborg vegna hugsanlegrar brottfarar hans.

Francesco Farioli, stjóri Porto, hefur einnig verið nefndur sem mögulegur kandídat.

Áður en Maresca var ráðinn árið 2024 tók Chelsea viðtöl við Roberto de Zerbi, stjóra Marseille, Kieran McKenna, stjóra Ipswich, og Thomas Frank, sem þá var hjá Brentford en hefur síðan farið til Tottenham.

Andoni Iraola, stjóri Bournemouth, og Marco Silva hjá Fulham hafa einnig verið orðaðir við starfið áður, þótt óljóst sé hvort þeir séu nú til skoðunar.

Félagið mun ekki breyta leikstíl sínum, svo það er mjög ólíklegt að það myndi reyna að fá Oliver Glasner, stjóra Crystal Palace.

Það er ekki enn ljóst hver mun stýra liðinu í leiknum gegn Manchester City á sunnudag, en Calum McFarlane, aðalþjálfari U21-liðsins, mun sjá um samskipti við fjölmiðla á blaðamannafundi til að kynna leikinn á föstudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×