Enski boltinn

„Bara plástur á sár, hann mun ekki vera þarna í mörg ár“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Kjartan Henry ráðlagði Liam Rosenior að segja pass við stjórastarfinu hjá Chelsea.
Kjartan Henry ráðlagði Liam Rosenior að segja pass við stjórastarfinu hjá Chelsea. getty / sýn skjáskot

Enzo Maresca er hættur störfum sem knattspyrnustjóri Chelsea í ensku úrvalsdeildinni og Liam Rosenior er sagður líklegastur til að taka við starfinu en sérfræðingar Sunnudagsmessunnar hafa ekki mikla trú á honum til framtíðar.

Nýja árið hófst með alvöru áramótasprengju þegar tilkynnt var um starfslok Maresca í gærmorgun.

Tíðindin komu á óvart en þó hafði kurrað lengi í herbúðum Chelsea og augljóst er að eitthvað mikið hefur gengið á bak við tjöldin.

Maresca, sem gerði liðið að Sambandsdeildarmeisturum og heimsmeisturum félagsliða á síðasta tímabili, hafði greint frá erfiðleikum í starfi en vildi ekki lýsa verstu 48 klukkutímum sínum í starfi neitt nánar eða tjá sig frekar um stjórnarmenn Chelsea.

Erfitt er því að segja til um hvað nákvæmlega olli uppsögninni og hver tók ákvörðunina, hvort hann hafi verið rekinn eða hætt sjálfur. Maresca hefur verið orðaður við stjórastöðuna hjá Manchester City í sumar en ekkert er víst í þeim efnum og langur tími til stefnu.

Sérfræðingar Messunnar veltu vöngum yfir þjálfarabreytingunum í þætti gærkvöldsins og sammæltust um að mörgum spurningum væri enn ósvarað. 

Þau ræddu þá manninn sem er talinn eiga að taka við starfinu, Liam Rosenior sem er í dag þjálfari Strasbourg.

„Við værum auðvitað ekki að tala um hann nema bara af því að félögin eru undir sama eignarhaldi“ sagði Kjartan Henry Finnbogason en benti svo réttilega á að hann hefur náð góðum árangri með Strasbourg.

„Það er rosalega erfitt að segja nei þegar stórklúbbar eins og Chelsea koma að banka upp á, en ef ég væri hann, ungur þjálfari með engu reynslu í ensku úrvalsdeildinni, þá myndi ég sleppa þessu.“

„Við höfum séð unga þjálfara fara til Chelsea og mistakast hrapalega“ skaut þáttastjórnandinn Ríkharð Óskar Guðnason þá inn í.

„Einmitt. Það kæmi mér ekki á óvart ef hann tæki við, en það yrði þá bara plástur á sár, hann mun ekki vera þarna í mörg ár“ svaraði Kjartan.

Adda Baldursdóttir fór svo yfir listann af öðrum mögulegum þjálfurum sem gætu tekið við starfinu en sagði „ekkert mikið í boði.“

Klippa: Óvænt og furðuleg uppsögn Enzo Maresca

Umræðuna má sjá í spilaranum að ofan.

Chelsea mætir Manchester City á sunnudaginn klukkan 17:30 í beinni útsendingu á Sýn Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×