Viðskipti innlent

Út­gáfu ViðskiptaMogga hætt og deildum fækkað

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Morgunblaðið, mbl.is og K100 heyra undir fjölmiðlasamsteypu Árvakurs.
Morgunblaðið, mbl.is og K100 heyra undir fjölmiðlasamsteypu Árvakurs. visir/Vilhelm

Vikulegri útgáfu ViðskipaMoggans verður hætt og þá hafa þrjár deildir hjá mbl.is og Morgunblaðinu verið sameinaðar í eina. Breytingarnar sem gerðar hafa verið á ritstjórn Morgunblaðsins og fréttavefsins mbl.is sem fela í sér að þær deildir sem annast hafa almennan fréttaflutning á blaði og vef hafa verið sameinaðar. Sömuleiðis hefur viðskiptadeild blaðsins, sem hefur sinnt umfjöllun bæði á vef og í blaði, verið færð undir sömu deild.

Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag, en Matthías Johannessen, sem áður stýrði viðskiptadeild blaðsins, er nú aðalfréttastjóri yfir sameinaðri deild.

„Sameiningunni er ætlað efla samskipti vefs og blaðs og tryggja þannig áskrifendum og lesendum öllum enn öflugri þjónustu,“ segir meðal annars um breytingarnar í Morgunblaðinu í dag. Þótt útgáfu ViðskiptaMoggans verði hætt er lagt upp með að viðskiptasíðum í aðalblaði Morgunblaðsins verði fjölgað og aukin áhersla sett á viðskiptaumfjöllun á mbl.is.

Tilkynna um breytingar eftir uppsagnir um áramótin

„Ástæðan er, líkt og í þessum breytingum í heild sinni, að breytt umhverfi upplýsinga og fjölmiðlunar kallar á aukið samspil miðla, aukinn hraða og aukna skilvirkni í fréttavinnslu,“ segir ennfremur um málið í frétt Moggans í dag.

Líkt og Vísir greindi frá á dögunum voru nokkrar uppsagnir hjá Árvakri, sem rekur mbl.is og Morgunblaðið, um áramótin. Þannig var Kolbrúnu Bergþórsdóttur, blaðamanni, gagnrýnanda og pistlahöfundi, og Víði Sigurðarsyni, fréttastjóra íþróttadeildar, sagt upp störfum hjá Morgunblaðinu, auk þess sem Bolli Már Bjarnason, útvarpsmaður á K100, var í hópi þeirra sem sagt var upp. Þá var þremur blaðamönnum sagt upp mánuði áður, eða í lok nóvember síðastliðnum.

Ekki kemur fram í umfjöllun Morgunblaðsins hvort breytingarnar sem greint er frá í dag hafi í för með sér frekari fækkun stöðugilda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×