Enski boltinn

„Myndum að sjálf­sögðu taka honum opnum örmum“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diogo Dalot er einn af þeim sem spiluðu undir stjórn Ole Gunnar Solskjær hjá Manchester United og eru þar enn.
Diogo Dalot er einn af þeim sem spiluðu undir stjórn Ole Gunnar Solskjær hjá Manchester United og eru þar enn. Getty/Matthew Peters

Manchester United féll í gær út úr enska bikarnum og hefur enn ekki náð að vinna leik undir stjórn Darren Fletcher.

Tapleikurinn í gær var á Old Trafford en tapaðist 2-1 á móti Brighton eftir að gestirnir komust í 2-0.

Enn er óvíst hver mun stýra liðinu það sem eftir er tímabilsins. Eftir bikartapið var Diogo Dalot spurður út í Ole Gunnar Solskjær á TV2 í Noregi.

„Hann er maður sem veit um hvað þetta félag snýst. Hann hefur verið hér sem leikmaður og hann hefur verið hér sem knattspyrnustjóri,“ sagði Diogo Dalot. Portúgalinn var því ekki neikvæður gagnvart mögulegri endurkomu Solskjærs.

„Ef hann er maðurinn sem kemur inn, þá myndum við að sjálfsögðu taka honum opnum örmum og berjast fyrir því að vinna fótboltaleiki. Hvort sem það verður hann eða annar stjóri, þá munum við gera það sama,“ sagði Dalot.

Nokkrir fjölmiðlar hafa undanfarið greint frá því að bæði Solskjær og Michael Carrick hafi fundað með félaginu um tímabundið þjálfarastarf. Það var Darren Fletcher sem stýrði liðinu í tapinu gegn Brighton eins og í leiknum á undan sem endaði með jafntefli á móti Burnley.

„Ég þarf að mæta á Carrington í fyrramálið, það er allt sem ég veit,“ sagði Fletcher á blaðamannafundinum eftir leikinn í gær.

Hann sagði einnig að hann hefði ekki fengið neinar vísbendingar um hver yrði nýr aðstoðarþjálfari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×