Innlent

Léttara yfir for­manninum eftir þriggja tíma fund

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Magnús Þór Jónsson formaður Kennarasambandsins sat langan fund með ráðherra í dag.
Magnús Þór Jónsson formaður Kennarasambandsins sat langan fund með ráðherra í dag. Vísir/Vilhelm

Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, segist hafa farið bjartari út af fundi með Ingu Sæland mennta- og barnamálaráðherra en hann fór inn á hann. Fundurinn stóð yfir í rúmlega þrjár klukkustundir að hans sögn.

Inga Sæland vakti töluverða gremju meðal kennara í Kastljósi í gær. Sérstaka athygli vöktu orð hennar um einkunnakerfi í grunnskólum. Fullyrti Inga að aðeins væru gefnar einkunnir í bókstöfum í tíunda bekk en rétt er að einkunnir eru gefnar í bókstöfum og litatáknum á öllum stigum grunnskólans og hefur verið svo um þónokkurt skeið.

„Skólar geta jafnvel gefið einkunnir í litum og alls konar en það hefur engum dottið það í hug held ég,“ sagði Inga áður en Urður Örlygsdóttir tók orðið og sagðist ekki viss um að svo væri.

„Jú jú, það er þannig. Ég er nú barna- og menntamálaráðherra alveg síðan í fyrradag þannig að ég veit þetta þó,“ sagði Inga brosandi.

Strengir stilltir saman

Kennarar létu óánægju sína með nýja ráðherrann í ljós á samfélagsmiðlum og víðar. Lektor við menntavísindasvið Háskóla Íslands sagði það leitt að ráðherra skyldi vera fremstur í flokki upplýsingaóreiðu og falsfrétta og viðtalið varð skólastjóra í Kópavogi tilefni til að velta merkingu orðsins besserwisser á samfélagsmiðlum.

Magnús Þór sótti fundinn með Ingu ásamt Jónínu Hauksdóttur varaformanni.

„Þetta var langur og mikilvægur fundur og er vonandi liður í því að allir fari að stilla saman strengi og tojtoji saman í réttar áttir,“ segir hann.

Ber væntingar til samstarfsins

Ummæli Ingu Sæland hafi verið rædd á fundinum.

„Það kom sannarlega upp samtal um það hvort við gætum ekki tengt okkur saman, meðal annars í þessum atriðum sem Inga fór yfir í þessum viðtölum. Við áttum bara hreinskilið og gott samtal um áherslur í skólamálum,“ segir hann.

„Ég ber væntingar til þess að við getum stillt saman strengi og unnið saman að hagsmunum barna á Íslandi í gegnum allt skólakerfið. Það er mun bjartara yfir mér eftir fundinn heldur fyrir hann,“ segir Magnús Þór Jónsson formaður KÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×