Enski boltinn

Engin mis­tök þegar „rangstöðumark“ Wirtz var dæmt gilt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Florian Wirtz skorar hér markið sitt á móti Fulham en varnarmaður Fulham heimtar rangstöðu.
Florian Wirtz skorar hér markið sitt á móti Fulham en varnarmaður Fulham heimtar rangstöðu. Getty/Shaun Brooks

Myndbandsdómarinn gerði ekki mistök með því að dæma mark Florian Wirtz fyrir Liverpool gegn Fulham gilt, að sögn nefndar ensku úrvalsdeildarinnar um lykilatvik í leikjum.

Liverpool var 1-0 undir á Craven Cottage á 57. mínútu þegar Wirtz náði boltanum eftir snertingu frá Connor Bradley og skoraði. Aðstoðardómarinn lyfti strax flaggi sínu fyrir rangstöðu á þýska landsliðsmanninum.

Myndbandsdómarinn, Andy Madley, greip inn í og dæmdi markið gilt eftir að hafa beitt hálfsjálfvirkri rangstöðutækni.

Wirtz naut góðs af fimm sentímetra skekkjumörkum, oftast nefndar þykkari línur, sem eru hluti af SAOT-kerfi ensku úrvalsdeildarinnar.

Ekki löglegt mark í öðum löndum

Ef markið hefði verið skorað í Þýskalandi, Ítalíu eða á Spáni hefði það verið dæmt af. Þessar deildir beita engum skekkjumörkum.

Þetta var umdeild ákvörðun þar sem myndir sem sýndar voru í sjónvarpi gáfu til kynna að Wirtz væri greinilega fyrir innan síðasta varnarmanninn.

Einróma ákvörðun

Nefndin um lykilatvik í leikjum studdi samt Madley einróma og sagði: „Inngrip VAR til að dæma markið gilt var stutt sem rétt ákvörðun í ljósi þess hversu tæp rangstaðan var og notkunar á þykkari rangstöðulínum í svona ótrúlega tæpum tilvikum.“

Leikurinn endaði 2-2 og Marco Silva, stjóri Fulham, lýsti marki Wirtz sem „augljósri rangstöðu“ og kallaði eftir skýringum.

Silva sagði að félagið hefði haft samband við samtök atvinnudómara til að leggja fram kvörtun.

Misræmið í vali á myndaramma

BBC Sport hefur heimildir fyrir því að misræmið liggi í vali sjónvarpsstöðvarinnar á myndaramma.

Myndbandsdómarinn valdi þann ramma þegar Bradley snerti boltann fyrst, ekki þegar hann fór af fæti hans.

Sjónvarpsstöðin frysti myndina einum ramma síðar, sem gaf þá mynd að Wirtz væri augljósar rangstæður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×