Innlent

Allir hafi á­huga á Ís­landi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Bryndís Alexandersdóttir, sem er viðskiptastjóri hjá Íslandsstofu á kynningarfundinum á Selfossi í vikunni.
Bryndís Alexandersdóttir, sem er viðskiptastjóri hjá Íslandsstofu á kynningarfundinum á Selfossi í vikunni. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Hugvit og tækni er orðin stór hluti af starfsemi Íslandsstofu þar sem vaxtatækifærin felast meðal annars í lífvísindum, hugbúnaðarþróun og matvæla- og sjávartækni. Markhópar eru erlendir fjárfestar, erlendir sérfræðingar og erlend fyrirtæki í leit að lausnum.

„Nýsköpun og ný tengsl” var yfirskrift hringferðar Tækniþróunarsjóðs, Klaks, Vísindagarða og Íslandsstofu þar sem farið var á nokkra staði á landinu og starfsemin kynnt. Einn slíkur fundur var haldinn hjá Háskólafélagi Suðurlands á Selfossi í vikunni. Bryndís Alexandersdóttir, viðskiptastjóri hjá Íslandsstofu, var til dæmis með mjög áhugaverðan fyrirlestur um hugvit og tækni.

„Það hafa allir áhuga á Íslandi því það er alveg sama hvert þú kemur. Ef þú segist vera frá Íslandi eða segist geta boðið upp á að kynna Ísland eða Íslendinga inn í eitthvað rými þá ertu garanteraður með stóran hóp af fólki, sem kemur,” segir Bryndís.

Ein af glærunum fá Bryndísi.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Bryndís segir að hugvit og tækni sé nú mjög inn hjá Íslandsstofu, það sé sérstaklega ánægjulegt.

„Það er mjög mikilvægt því þar verður til alvöru og mikil virðisaukning og hugvit er óþrjótandi auðlind, við megum ekki gleyma því þannig að okkur eru engin takmörk sett, Þannig að við eigum bara að setja miklu meiri pening í að efla hugvit og tækni á Íslandi og styrkja umhverfi og fá erlenda fjárfestingu inn í landið þannig að hún blómstri, sem aldrei fyrr. Við getum verið leiðandi á því sviði ef við viljum það,” segir Bryndís.

Hér má sjá markmið Íslandsstofu.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×