Fótbolti

Mikael Egill fagnaði endurkomusigri

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Mikael Egill í leik með Genoa
Mikael Egill í leik með Genoa Vísir/Getty

Mikael Egill Ellertsson spilaði allan leikinn í 3-2 endurkomusigri Genoa gegn Bologna í 22. umferð ítölsku úrvalsdeildarinnar. Genoa lenti tveimur mörkum undir en sneri leiknum við eftir að gestirnir urðu manni færri.

Mikael Egill var á miðjunni hjá Genoa en þessi fjölhæfi leikmaður hefur líka spilað hægri og vinstri vængbakvarðarstöðuna undir stjórn Daniele De Rossi.

Genoa hefur nú farið fimm leiki í röð án taps og fagnað tveimur sigrum, sem hafa lyft liðinu upp úr fallbaráttunni og í 13. sæti deildarinnar.

Það stefndi hins vegar allt í tap, því Genoa lenti tveimur mörkum undir. Lewis Ferguson kom boltanum í netið rétt fyrir hálfleik og Sebastian Otoa skoraði sjálfsmark sem tvöfaldaði forystuna.

Bologna missti mann af velli skömmu síðar, Lukasz Skorupski fékk rautt spjald fyrir að fella sóknarmann sem var sloppinn í gegn.

Þá tókst heimamönnum Genoa að snúa leiknum algjörlega við. Ruslan Malinovskiy minnkaði muninn og Caleb Ekuban jafnaði leikinn. Junior Messias innsiglaði svo sigurinn með glæsimarki, skoti af löngu færi.

Endurkoma hjá Karólínu og Cecilíu líka

Cecilía Rán Rúnarsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir fögnuðu líka 3-2 endurkomusigri, með Inter á útivelli gegn FC Como.

Inter lenti tvisvar undir en kom til baka í bæði skipti og skoraði síðan sigurmarkið á fjórðu mínútu uppbótartíma.

Cecilía Rán var í byrjunarliðinu og spilaði allan leikinn en Karólína kom inn af varamannabekknum á 59. mínútu, rétt áður en Inter jafnaði 2-2.

Tap hjá Birtu 

Birta Georgsdóttir spilaði síðasta hálftímann í 0-1 tapi Genoa gegn Roma í 11. umferð ítölsku úrvalsdeildar kvenna. Birta var þar að spila sinn annan leik fyrir félagið en hún skoraði jöfnunarmark gegn Fiorentina í fyrsta leiknum í síðustu umferð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×