Van Aanholt skoraði sigurmarkið þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Hann átti þá fast skot sem David De Gea réði ekki við. Þetta var fyrsti sigur Palace á tímabilinu, fyrsti sigur liðsins á United í deildarleik í 28 ár og fyrsti sigurinn á Old Trafford í þrjá áratugi.
CPFC
1st win inleague games against Man Utd since 1991
1st league win at Old Trafford since 1989
pic.twitter.com/5oG10YkZGw
— Sky Sports Statto (@SkySportsStatto) August 24, 2019
Annan leikinn í röð klúðraði United vítaspyrnu. Marcus Rashford skaut í stöng á 69. mínútu.
United sótti meira í fyrri hálfleik en skapaði ekki mörg opin færi. Daniel James fékk það besta en Van Aanholt bjargaði.
Á 32. mínútu náði Palace forystunni. Jordan Ayew slapp þá í gegn eftir skalla Jeffery Schlupp og skoraði framhjá David De Gea.
Skömmu eftir mark Ayews síðar varði De Gea frá Wilfried Zaha úr góðu færi. Staðan var 0-1 í hálfleik, Palace í vil.
Á 69. mínútu braut Luka Milovojevic á Scott McTominay innan teigs og United fékk víti þriðja leikinn í röð. Paul Pogba klúðraði víti í jafnteflinu við Wolves á mánudaginn og Rashford, sem skoraði gegn Chelsea í 1. umferðinni, skaut í stöng í dag.
Þegar mínúta var til leiksloka jafnaði James metin með fallegu marki. Það dugði þó skammt því Van Aanholt átti síðasta orðið eins og áður sagði.