Handbolti

Nítján marka sigur Vals í Eyjum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sandra skoraði átta mörk á sínum gamla heimavelli.
Sandra skoraði átta mörk á sínum gamla heimavelli. vísir/daníel
Valur vann stórsigur á ÍBV, 14-33, þegar liðin mættust í Vestmannaeyjum í Olís-deild kvenna í dag.

Með sigrinum endurheimtu Valskonur toppsæti deildarinnar. Þær eru einu stigi á undan Frömurum. Eyjakonur eru áfram í 7. sætinu með sín þrjú stig.

Eins og lokatölurnar gefa til kynna hafði Valur gríðarlega mikla yfirburði í leiknum. Íslandsmeistararnir voru tólf mörkum yfir í hálfleik, 5-17.

Bilið breikkaði í seinni hálfleik og Valskonur unnu á endanum 19 marka sigur, 14-33.

Eyjakonan Sandra Erlingsdóttir var markahæst í liði Vals með átta mörk. Önnur Eyjakona, Díana Dögg Magnúsdóttir, skoraði fimm mörk líkt og Vigdís Birna Þorsteinsdóttir.

Íris Björk Símonardóttir og Andrea Gunnlaugsdóttir vörðu samtals 18 skot í marki Vals, eða 56,3% þeirra skota sem þær fengu á sig. Á meðan vörðu markverðir ÍBV aðeins sjö skot (17,5%).

Ásta Björt Júlíusdóttir skoraði helming marka ÍBV, eða sjö.

Skotnýting Eyjakvenna var aðeins 30,4% og þá töpuðu þær boltanum 23 sinnum í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×