Umfjöllun: Þýskaland - Ísland 33-25 | Þjóðverjar keyrðu yfir Strákana okkar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Janus Daði Smárason lék vel í fyrri hálfleik.
Janus Daði Smárason lék vel í fyrri hálfleik. vísir/ernir

Ísland tapaði með átta marka mun fyrir Þýskalandi, 33-25, í eina æfingaleik sínum fyrir EM 2020. Leikið var á heimavelli Rhein-Neckar Löwen í Mannheim.

Íslendingar léku lengst af vel í fyrri hálfleik en Þjóðverjar voru miklu sterkari í þeim seinni og eftir nokkrar mínútur í honum var ljóst í hvað stefndi.

Janus Daði Smárason, Guðjón Valur Sigurðsson og Arnór Þór Gunnarsson voru markahæstir í íslenska liðinu með fjögur mörk hver.

Aron Pálmarsson og Daníel Þór Ingason léku ekki með íslenska liðinu í dag vegna meiðsla. Ekki bætti úr skák að Elvar Örn Jónsson meiddist eftir fimm mínútna leik og kom ekkert við sögu eftir það. Íslenska liðið mátti ekki við því gegn sterku liði Þýskalands.

Þjóðverjar byrjuðu leikinn betur og komust í 5-2. Þá tók Guðmundur Guðmundsson leikhlé og eftir það kom miklu betri taktur í íslensku sóknina. Janus Daði spilaði stórvel í fyrri hálfleik og dró vagninn í sóknarleiknum.

Íslendingar jöfnuðu í 9-9, Þjóðverjar svöruðu með tveimur mörkum í röð en Ísland gerði svo þrjú mörk í röð og náði forystunni, 11-12.

Ísland skoraði svo aðeins eitt mark á síðustu átta mínútum fyrri hálfleiks á meðan Þýskaland gerði fimm. Staðan í hálfleik var 16-13, Þjóðverjum í vil.

Þýska liðið skoraði níu mörk eftir hraðaupphlaup í fyrri hálfleik. Þjóðverjar sköpuðu sér mun betri og opnari færi og nýttu þau frábærlega.

Í fyrri hálfleik var skotnýting þýska liðsins 85% en þess íslenska aðeins 45%. Munurinn á markvörslunni var mikill. Björgvin Páll Gústavsson varði þrjú skot í íslenska markinu (15%) en Andreas Wolff tíu í því þýska (43%).

Þjóðverjar voru miklu sterkari í upphafi seinni hálfleiks. Johannes Bitter varði allt sem á markið kom og þýska liðið refsaði sem fyrr grimmilega.

Þýskaland skoraði fyrstu fjögur mörk seinni hálfleiks og fyrsta mark Íslands kom ekki fyrr en eftir átta mínútur.

Heimamenn héldu áfram að auka muninn og komust mest níu mörkum yfir, 27-18.

Þá kom góður 7-3 kafli hjá Íslandi sem minnkaði muninn í fimm mörk. Þýskaland skoraði hins vegar síðustu þrjú mörk leiksins og vann átta marka sigur, 33-25.

Þjóðverjar skoruðu alls 14 mörk eftir hraðaupphlaup og nokkur til viðbótar eftir hraða miðju. Íslendingar voru lengi til baka allan leikinn og Þjóðverjar fengu hvert opna færið á fætur öðru.

Viktor Gísli Hallgrímsson stóð í íslenska markinu í seinni hálfleik og varði sex skot (26%). Heilt yfir var markvarslan Íslands í leiknum aðeins 21%.

Alexander Petersson lék sinn fyrsta landsleik í fjögur ár.vísir/valli

Af hverju vann Þýskaland?

Þjóðverjar byrjuðu og enduðu fyrri hálfleikinn betur en í millitíðinni spiluðu Íslendingar vel. Eftir bras í sókninni til að byrja með kom betri taktur í hana og íslenska liðið skoraði 13 mörk í fyrri hálfleik þrátt fyrir að Wolff hafi varið vel í þýska markinu.

Íslendingar réðu hins vegar aldrei við hraðaupphlaup Þjóðverja sem keyrðu yfir okkar menn. Markvarsla Íslands var slök en Björgvini Páli og Viktori Gísla til varnar fengu þeir fjölmörg dauðafæri á sig.

Þjóðverjar sýndu síðan styrk sinn í upphafi seinni hálfleik. Vörn þeirra dró tennurnar úr íslensku sókninni og heimamenn náðu afgerandi forskoti sem þeir héldu út leikinn.

Hverjir stóðu upp úr?

Janus Daði var mjög öflugur í fyrri hálfleik og sýndi að hann ætlar sér að vera í EM-hópnum. Hann skoraði fjögur mörk og fór nokkrum sinnum illa með þýsku varnarmennina. Janus Daði gaf eftir í upphafi seinni hálfleiks og Haukur Þrastarson kláraði leikinn í stöðu leikstjórnanda.

Arnór Þór og Guðjón Valur voru fínir í fyrri hálfleik og skiluðu fjórum mörkum hvor.

Hvað gekk illa?

Eins og áður sagði voru Íslendingar alltof lengi að hlaupa til baka og Þjóðverjar nýttu sér það til hins ítrasta. Munurinn á líkamsburðum liðanna kom svo bersýnilega í ljós í stöðunni maður gegn manni sem Þjóðverjar unnu nær undantekningarlaust.

Fyrir utan smá kafla í fyrri hálfleik var íslenska vörnin slök og Þjóðverjar höfðu ekki mikið fyrir því að opna hana.

Í fjarveru Arons og Elvars hefði Ólafur Guðmundsson þurft að gera sig gildandi, sérstaklega í sókninni. Það gekk hins vegar ekkert upp hjá Hafnfirðingnum sem vill eflaust gleyma þessum leik sem fyrst.

Sömu sögu er að segja af Alexander Petersson sem gerði lítið í sínum fyrsta landsleik í fjögur ár. Þeir Ólafur voru samtals með fjögur mörk úr 17 skotum.

Hvað gerist næst?

Íslenska liðið heldur nú aftur heim og hefur lokaundirbúning fyrir EM. Fyrsti leikurinn á mótinu er gegn Dönum eftir viku.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira