Menning

Sparað í sumarfríinu

Nú eru sumarfríin að komast í algleyming og fólk komið í ferðastuð. Þótt Ísland sé dýrt ferðamannaland í samanburði við flest önnur hefur það líka upp á margt að bjóða sem ekki er hægt að njóta hvar sem er. Gildir það til dæmis um hollan íslenskan mat, heilnæmt loft og hreina náttúru. Við getum líka sparað á ferðalögum ef vilji er fyrir hendi og það að þarf ekkert að vera svo miklu dýrara að borða á ferðalagi um landið en heima hjá sér. Fyrirhyggjan borgar sig. Til dæmis að smyrja brauð í stað þess að kaupa tilbúnar samlokur í sjoppunum og elda sjálfur kvöldmatinn í stað þess að setjast inn á næsta veitingastað. Einnig hita vatn í kaffið eða kakóið eða biðja um heitt vatn á brúsa í gististað. Það er ódýrt. Gistingu er víða hægt að fá á góðu verði, jafnvel tjalda á lækjarbakka úti í náttúrunni. Öruggara er þá að fá leyfi landeigenda og að sjálfsögðu gegn því að ganga vel um og skilja svæðið eftir eins og komið var að því. Flestir aðhyllast þó hin hefðbundnu tjaldstæði ef um tjaldútilegu er að ræða, enda snyrtiaðstaða þar í boði og jafnvel eldunaraðstaða. Algengt verð á tjaldstæðum er 500 krónur fyrir manninn fyrir nóttina en í einstaka bæjarfélögum er gistingin ókeypis. Farfuglaheimili, bændagistingar og gistiheimili bjóða upp á svefnpokapláss á verðinu frá 1.500-2.200 og þótt talað sé um svefnpoka er auðvitað eins hægt að hafa sængina með. Ýmiss konar spennandi afþreying er víða í boði en ef lítið er í buddunni getur þurft að sneiða hjá þeirri dýrustu og halda sig frekar á þeim mörgu stöðum sem hægt er að njóta án þess að greiða fyrir það. Á landinu eru fögur fjöll til að kanna og klífa, tilkomumiklir fossar að skoða og víðáttumiklar fjörur að ganga. Alls staðar þarf vissulega að fara um með það í huga að engu sé spillt og vissara getur verið að spyrja landeigendur leyfis. Sums staðar er hægt að skoða söfn endurgjaldslaust og á öðrum stöðum að kaupa dagpassa sem gilda í sund og söfn á tilteknum svæðum. Þeir eiga að lágmarka útgjöldin. gun@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×