Menning

Öðruvísi í New York

Stuð milli stríða



Birgir Örn Steinarsson þekkir ekki fólk í sundur í mannmergðinni í New York.

Hér í New York er allt reynt til þess að senda hinum maurunum á götunni þau skilaboð að viðkomandi sé ólíkur restinni. Allir vilja vera einstakir. Fólk breytir útlitinu eftir þessu, enda gefa vegfarendur engu öðru gaum á fimm sekúndum.

Mannskepnan hefur ekkert of marga möguleika hvað þetta varðar. Það eru fötin, hárgreiðslan, húðflúr, hattar og járndrasl sem fólk gatar sig með á ótrúlegustu stöðum.

En hér eru svo ótrúlega margir að þrátt fyrir allar þessar tilraunir, þá verður fólk samt eins. Ósjálfrátt skipum við okkur í einhverjar ímyndaðar fylkingar. Pönkarar, gellur, sæta fólkið sem veit af því, ljóta fólkið sem veit af því, gospappar, rokkarar, hipphopparar, ljóta fólkið sem veit ekki af því, ábyrgðarfulla jakkafataklíkan, ríka gengið sem vill ekki að það sjáist á því að það eigi peninga og skartgripagengið sem þykist eiga peninga.

Þegar allt kemur til alls og maður gengur eða treður sér á milli skýjaklúfa sér maður sama fólkið alls staðar. Allir renna saman í eitt. Þú getur verið sá sem þú vilt og klætt þig eins og þú vilt. Það sem raunverulega skiptir máli er hvað þú gerir og hvort þú sért nægilega vakandi til þess að grípa tækifærin þín. Ég myndi jafn glaður ráða pönkara dragdrottningu í vinnu og hipphopp nunnu... eins lengi og ég héldi að þau væru með sitt á hreinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×