Menning

Lán bankanna verði skoðuð

Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ, vill að Samkeppnisstofnun og Fjármálaeftirlitið skoði íbúðalán bankanna. Formlegt erindi verður sent þessum stofnunum á næstu dögum. Gylfi segir algerlega ljóst að bönkunum sé óheimilt að taka sérstakt gjald vegna uppgreiðslu lána. Alþýðusamband Íslands hefur haldið því fram að bönkunum sé óheimilt að taka sérstakt tveggja prósenta gjald af neytendum sem vilja greiða upp lán sín áður en lánstíma lýkur, enda falli öll íbúðalán undir svokölluð neytendalán. Samtök banka og verðbréfafyrirtækja hafa á móti haldið því fram að íbúðalán væru ekki neytendalán og því væri bönkunum heimilt að innheimta slíkt gjald, líkt og af öðrum lánum sem væru til lengri tíma en fimm ára. Gylfi Arnbjörnsson segir að íbúðalán hafi áður verið undanskilin lögum um neytendalán en lögunum verið breytt á síðustu árum. Hann segir að nú séu öll lán sem neytendur taki af bönkum og sparisjóðum skilgreind sem neytendalán. Gylfi segir að reglugerð viðskiptaráðuneytisins hafi ekki verið uppfærð í samræmi við lagabreytinguna. Það sé aftur á móti ótvírætt að íbúðalán séu neytendalán og því séu bankarnir að brjóta lög ef þeir haldi því til streitu að innheimta slíkt gjald. Hann segir tvö prósent gjald vera æði mikið og því taki langan tíma að vinna það upp. Gylfa finnst skondið að bankarnir séu að hvetja fólk til að greiða upp lán með því að taka ný lán, en kynni í leiðinni að það eigi að setja uppgreiðsluálag nýju lánin. Hann segist auðvitað fagna því að bankarnir lækki vexti en ASÍ vill endilega benda á að umrætt gjald er ekki heimilt.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.