Lögbannið fellt úr gildi
Hæstiréttur hefur fellt úr gildi lögbann við að Siðanefnd Háskóla Íslands fjalli um vinnubrögð Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar þegar hann reit fyrsta bindi ævisögu Halldórs Laxness í fyrra. Héraðsdómur hafði fallist á kröfu Hannesar um að setja lögbann á að siðanefndin fjallaði um einstök atriði málsins en aðstandendur Halldórs Laxness kærðu hann fyrir ritstuld til siðanefndarinnar. Hæstiréttur segir í dómi sínum að Siðanefnd Háskóla Íslands sé ekki markað hlutverk með lögum og því verði hún ekki talin hafa þá stöðu innan stjórnkerfis Háskólans að hún geti borið skyldur eða átt réttindi að landslögum. Hún geti því ekki átt aðild að dómsmáli og er málinu því vísað frá Héraðsdómi. Af öðru bindi ævisögu Hannesar um Nóbelsskáldið er það að frétta að óvíst er hvort það kemur út á þessu ári eða því næsta að sögn Bjarna Þorsteinssonar, útgáfustjóra Almenna bókafélagsins.