Hefur Alþingi vald sitt frá Guði? 9. október 2004 00:01 Því miður er til þess rík tilhneiging hjá fjölmiðlum, að persónugera vandmeðfarin deilumál í stað þess að stuðla að því að fram fari um þau vitræn rökræða. Þessa gætti við meðferð þeirra á því uppþoti sem varð vegna kafla í ræðu forseta þingsins, Halldórs Blöndals, við þingsetninguna á dögunum. Menn vildu endilega setja hana í það samhengi að um væri að ræða móðgun við forsetann, persónuna Ólaf Ragnar Grímsson. Mér er með öllu óskiljanlegt að forsetinn sjálfur hefði getað litið á ræðuna sem móðgun við sig. Hann hafði lokið sínu starfi og var farinn úr þingsölunum. Hitt er annað mál að það var með öllu óviðeigandi að vísa til deilumála síðastliðins sumars við athöfn þar sem þingmenn áttu þess engan kost að svara fyrir sig með öðru móti en því að strunsa út. Þingforseti sagði í ræðu sinni við þetta tækifæri: "Synjunarákvæði stjórnarskrárinnar er leifar af þeirri trú, að konungurinn – einvaldurinn - fari með Guðs vald. Þingið stóð gegn vilja konungs og leiðrétti vald eins manns með því að taka það til sín. Alþingi er kosið af þjóðinni. Þar á fólk með ólíkar skoðanir og stefnur sína fulltrúa. Þar ráða menn ráðum sínum og leiða mál til lykta. Þótt forseti lýðveldisins sé kjörinn á sama hátt getur hann ekki mælt sig við Alþingi". Hvar var Halldór Blöndal í allt sumar þegar ítarlegar umræður fóru fram eftir synjun forseta á fjölmiðlalögunum um þá stjórnarskrá sem lýðveldinu var sett við stofnun þess 1944? Innan þings og utan var rækilega farið í saumana á öllum umræðum á Alþingi á árunum 1942-44 um stjórnarskrána, tillöguflutning þingmanna og afgreiðslu á þeim tillögum. Sú umræða leiddi þetta í ljós: Alþingi ákvað í upphafi að engar breytingar skyldi gera á stjórnarskránni nema þær einar sem leiddi af flutningi konungsvaldsins inn í landið og engin stofnun fengi við það meiri valdheimildir en verið höfðu. Alþingi ákvað aldrei að "leiðrétta vald eins manns með því að taka það til sín". Þvert á móti; tillögur um það, að forseti Íslands yrði valinn af Alþingi og staða hans þannig einungis táknræn tignarstaða, og komið á algeru þingveldi, voru felldar. Synjunarvaldið var þrautrætt. Raddir voru uppi um það að þótt konungur hefði aldrei beitt þessu valdi eftir fullveldið 1918, hefði vitneskjan um það leitt til aukinnar varkárni þingsins við setningu löggjafar. Meirihluti þingsins vildi því halda synjunarvaldinu, en fá það í hendur þjóðkjörnum forseta, sem færi með löggjafarvaldið í samlögum við þingið. En í staðinn fyrir óskorað synjunarvald konungs skyldi forseti aðeins hafa tímabundið synjunarvald, lög tækju gildi án undirskriftar hans, en færu til þjóðarinnar til endanlegs úrskurðar. Þetta jafngilti yfirlýsingu þingsins um að allt vald væri frá þjóðinni komið. (Guð var ekki nefndur á nafn í þessum umræðum, hvað þá að þingið væri að taka til sín vald, sem einhverntíma í fyrndinni hafði verið talið frá honum komið). Með þessu setti þingið sjálfu sér ákveðin valdmörk, en einnig forsetanum, þar sem synjunarvaldið var nú aðeins orðið málskotsvald. Þegar pólitískt ofríki stefnir máli í þvílíkt óefni, að þingviljinn stangast á við þjóðarviljann, er það rökrétt að þjóðin ein geti leitt málið til endanlegra lykta. Því má segja að hlutverk forsetans sem málskotsaðila samrýmist hinu hlutverki hans, sem meira er haldið á loft, þ.e. sameiningartákninu. Báðum er ætlað að koma á friði í samfélaginu. Það er beinlínis rangt hjá þingforsetanum, að Alþingi sé kjörið af þjóðinni með sama hætti og forsetinn. Þingmenn eru fulltrúar ákveðinna landshluta með misjafnt atkvæðavægi á bak við sig. Forsetinn einn er þjóðkjörinn með jöfnu atkvæðavægi allra landsmanna. Tillaga á Alþingi 1942-44 um að þingið gæti tekið aftur til afgreiðslu frumvarp sem forseti synjaði undirskriftar, og þyrfti það þá samþykki 2/3 þingmanna, var felld. Því er ljóst, að að það var stjórnarskrárbrot af hálfu meirihluta sumarþingsins að afnema lög, sem komin voru á forræði þjóðarinnar til úrskurðar. Á sama hátt braut forsetinn stjórnarskrána með því að staðfesta lög um afnám laga, sem alþingi hafði ekki lengur á sínu forræði. Alþingi hefur með þessum verknaði gefið forseta það óskoraða synjunarvald, sem stjórnarskrárgjafinn 1944 margfelldi. Þjóðin var svikin um það úrskurðarvald sem henni hafði verið fengið með samþykkt stjórnarskrárinnar.Enn er það opin spurning, hvort kjósendur geti leitað til dómsvaldsins til að rétta sinn hlut í þessu máli. Það er rétt hjá alþingisforsetanum að "ákvæði stjórnarskrárinnar um æðstu stjórn ríkisins, Alþingi, framkvæmdavald og dómsvald þurfa endurskoðunar við". En það er til þess að gefa alþingi þá reisn, sem það ekki hafði í sumar, þegar meirihluti þess lá hundflatur fyrir framkvæmdavaldinu, og til þess að efla jafnframt sjálfstæði dómsvaldsins gagnvart hinu sama valdi. Ekki til að þrengja enn að rétti borgaranna. Það væri vissulega einnar messu virði að forsætisnefnd þingsins beitti sér fyrir því að á vegum þess færi fram rannsókn á því hvað fyrir stjórnarskrárgjafanum vakti 1944 og að í kjölfarið færi fram vönduð umræða á þinginu með almennri þátttöku stjórnarliða en ekki einhliða málflutningi stjórnarandstöðunnar, sem staðfesti þá niðurstöðu, að þingið hefur ekki vald sitt frá Guði eða neinum öðrum aðila utan þings, heldur frá þjóðinni – og henni einni. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Ólafur Hannibalsson Skoðanir Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Því miður er til þess rík tilhneiging hjá fjölmiðlum, að persónugera vandmeðfarin deilumál í stað þess að stuðla að því að fram fari um þau vitræn rökræða. Þessa gætti við meðferð þeirra á því uppþoti sem varð vegna kafla í ræðu forseta þingsins, Halldórs Blöndals, við þingsetninguna á dögunum. Menn vildu endilega setja hana í það samhengi að um væri að ræða móðgun við forsetann, persónuna Ólaf Ragnar Grímsson. Mér er með öllu óskiljanlegt að forsetinn sjálfur hefði getað litið á ræðuna sem móðgun við sig. Hann hafði lokið sínu starfi og var farinn úr þingsölunum. Hitt er annað mál að það var með öllu óviðeigandi að vísa til deilumála síðastliðins sumars við athöfn þar sem þingmenn áttu þess engan kost að svara fyrir sig með öðru móti en því að strunsa út. Þingforseti sagði í ræðu sinni við þetta tækifæri: "Synjunarákvæði stjórnarskrárinnar er leifar af þeirri trú, að konungurinn – einvaldurinn - fari með Guðs vald. Þingið stóð gegn vilja konungs og leiðrétti vald eins manns með því að taka það til sín. Alþingi er kosið af þjóðinni. Þar á fólk með ólíkar skoðanir og stefnur sína fulltrúa. Þar ráða menn ráðum sínum og leiða mál til lykta. Þótt forseti lýðveldisins sé kjörinn á sama hátt getur hann ekki mælt sig við Alþingi". Hvar var Halldór Blöndal í allt sumar þegar ítarlegar umræður fóru fram eftir synjun forseta á fjölmiðlalögunum um þá stjórnarskrá sem lýðveldinu var sett við stofnun þess 1944? Innan þings og utan var rækilega farið í saumana á öllum umræðum á Alþingi á árunum 1942-44 um stjórnarskrána, tillöguflutning þingmanna og afgreiðslu á þeim tillögum. Sú umræða leiddi þetta í ljós: Alþingi ákvað í upphafi að engar breytingar skyldi gera á stjórnarskránni nema þær einar sem leiddi af flutningi konungsvaldsins inn í landið og engin stofnun fengi við það meiri valdheimildir en verið höfðu. Alþingi ákvað aldrei að "leiðrétta vald eins manns með því að taka það til sín". Þvert á móti; tillögur um það, að forseti Íslands yrði valinn af Alþingi og staða hans þannig einungis táknræn tignarstaða, og komið á algeru þingveldi, voru felldar. Synjunarvaldið var þrautrætt. Raddir voru uppi um það að þótt konungur hefði aldrei beitt þessu valdi eftir fullveldið 1918, hefði vitneskjan um það leitt til aukinnar varkárni þingsins við setningu löggjafar. Meirihluti þingsins vildi því halda synjunarvaldinu, en fá það í hendur þjóðkjörnum forseta, sem færi með löggjafarvaldið í samlögum við þingið. En í staðinn fyrir óskorað synjunarvald konungs skyldi forseti aðeins hafa tímabundið synjunarvald, lög tækju gildi án undirskriftar hans, en færu til þjóðarinnar til endanlegs úrskurðar. Þetta jafngilti yfirlýsingu þingsins um að allt vald væri frá þjóðinni komið. (Guð var ekki nefndur á nafn í þessum umræðum, hvað þá að þingið væri að taka til sín vald, sem einhverntíma í fyrndinni hafði verið talið frá honum komið). Með þessu setti þingið sjálfu sér ákveðin valdmörk, en einnig forsetanum, þar sem synjunarvaldið var nú aðeins orðið málskotsvald. Þegar pólitískt ofríki stefnir máli í þvílíkt óefni, að þingviljinn stangast á við þjóðarviljann, er það rökrétt að þjóðin ein geti leitt málið til endanlegra lykta. Því má segja að hlutverk forsetans sem málskotsaðila samrýmist hinu hlutverki hans, sem meira er haldið á loft, þ.e. sameiningartákninu. Báðum er ætlað að koma á friði í samfélaginu. Það er beinlínis rangt hjá þingforsetanum, að Alþingi sé kjörið af þjóðinni með sama hætti og forsetinn. Þingmenn eru fulltrúar ákveðinna landshluta með misjafnt atkvæðavægi á bak við sig. Forsetinn einn er þjóðkjörinn með jöfnu atkvæðavægi allra landsmanna. Tillaga á Alþingi 1942-44 um að þingið gæti tekið aftur til afgreiðslu frumvarp sem forseti synjaði undirskriftar, og þyrfti það þá samþykki 2/3 þingmanna, var felld. Því er ljóst, að að það var stjórnarskrárbrot af hálfu meirihluta sumarþingsins að afnema lög, sem komin voru á forræði þjóðarinnar til úrskurðar. Á sama hátt braut forsetinn stjórnarskrána með því að staðfesta lög um afnám laga, sem alþingi hafði ekki lengur á sínu forræði. Alþingi hefur með þessum verknaði gefið forseta það óskoraða synjunarvald, sem stjórnarskrárgjafinn 1944 margfelldi. Þjóðin var svikin um það úrskurðarvald sem henni hafði verið fengið með samþykkt stjórnarskrárinnar.Enn er það opin spurning, hvort kjósendur geti leitað til dómsvaldsins til að rétta sinn hlut í þessu máli. Það er rétt hjá alþingisforsetanum að "ákvæði stjórnarskrárinnar um æðstu stjórn ríkisins, Alþingi, framkvæmdavald og dómsvald þurfa endurskoðunar við". En það er til þess að gefa alþingi þá reisn, sem það ekki hafði í sumar, þegar meirihluti þess lá hundflatur fyrir framkvæmdavaldinu, og til þess að efla jafnframt sjálfstæði dómsvaldsins gagnvart hinu sama valdi. Ekki til að þrengja enn að rétti borgaranna. Það væri vissulega einnar messu virði að forsætisnefnd þingsins beitti sér fyrir því að á vegum þess færi fram rannsókn á því hvað fyrir stjórnarskrárgjafanum vakti 1944 og að í kjölfarið færi fram vönduð umræða á þinginu með almennri þátttöku stjórnarliða en ekki einhliða málflutningi stjórnarandstöðunnar, sem staðfesti þá niðurstöðu, að þingið hefur ekki vald sitt frá Guði eða neinum öðrum aðila utan þings, heldur frá þjóðinni – og henni einni.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun