Erlent

Kerry hafði betur en Bush

John Kerry, forsetaefni demókrata, virðist hafa komist heldur betur frá þriðju og síðustu kappræðum forsetaefna stóru flokkanna en George W. Bush Bandaríkjaforseti. Hann hafði mun betur í tveimur könnunum sem birtar voru eftir kappræðurnar og sjónarmun betur í þeirri þriðju. Samkvæmt könnun Gallups fyrir CNN og USA Today töldu 52 prósent aðspurðra að Kerry hefði staðið sig betur en Bush en 39 prósent voru á öndverðri skoðun. 39 prósentum aðspurðra í könnun CBS þótti meira til frammistöðu Kerry en Bush koma meðan um það bil fjórðungur taldi Bush hafa staðið sig betur. CBS spurði bara óákveðna kjósendur. Bush og Kerry voru næsta jafnir í könnun ABC sjónvarpsstöðvarinnar, Bush með 41 prósent en Kerry með 42 prósent. Þess ber þó að geta að 38 prósent aðspurðra voru repúblikanar en 30 prósent demókratar. Kappræðurnar snerust um innanríkismál. Kerry lagði áherslu á það sem hann sagði slaka stöðu forsetans á þeim vettvangi meðan Bush sagði Kerry einhvern vinstrisinnaðasta manninn í öldungadeildinni og varaði við að hann myndi hækka skatta.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×