
Menning
Stjörnur og fjöll

Evu Ólafsdóttur, kennara á Tálknafirði, hundleiðist í verkfallinu og vill að um semjist hið fyrsta svo hún geti aftur tekið til við að uppfræða æskuna. Síðustu vikur hefur hún reynt að stytta sér stundir með boltaleikjum í íþróttahúsinu og sundferðum í lauginni og að auki fer hún í Pollinn, setlaug rétt utan við bæinn sem er opin gestum og gangandi, gegn góðri umgengni. "Það er ofboðslega gott að koma hingað," segir Eva þar sem hún situr í lauginni og lætur vetrarsólina skína á sig. "Þetta er svo gott fyrir vöðvana." Eva fer í Pollinn þrisvar í viku og finnst best að koma á kvöldin og horfa á stjörnurnar. Sé bjart lætur hún sér fögur fjöllin nægja. "Ég hef gert þetta síðan 1971," segir Eva en hún fluttist til Tálknafjarðar það ár.