Erlent

Ómögulegt að spá um úrslit

Einhverjar mest spennandi forsetakosningar í manna minnum fara fram í Bandaríkjunum í dag. Mikil óvissa ríkir og fréttaskýrendum hefur reynst ómögulegt að spá um útkomuna. Mikill hiti er í frambjóðendum og er talið að þeir Bush og Kerry muni rjúfa þá hefð að vera ekki með áróður á kjördag en talið er að báðir muni í dag koma opinberlega fram til að reyna að hafa áhrif á þessum lokaspretti. Meðaltal sex kannana sem gerðar voru á síðustu þremur dögum sýna að Bush er með 48% fylgi en Kerry 46% fylgi. Þessi munur er þó innan skekkjumarka og telst því ekki marktækur. Stuðniningsmenn þeirra Bush og Kerry hafa lagt mikla áherslu á atkvæðasmölun á lokasprettinum og er talið að hún geti skipt sköpum um hver útkoman verður. Þeir Bush og Kerry gerðu allt sem þeir gátu í gær til að reyna að sannfæra þá sem enn eru óákveðnir. Milljónir manna hafa kosið utankjörfundar og búist er við að kosningaþátttakan nú geti orðið ein sú mesta í fjörutíu ár. Í könnun ABC sögðu 75% að þeir teldu kosningarnar nú þær mikilvægustu á sinni lífstíð. Fréttaskýrendur telja að mikil kosningaþátttaka geti orðið Kerry í hag þar sem nýir kjósendur og þeir sem kjósa sjaldan eru líklegri til að kjósa breytingar. Hins vegar hafa Bandaríkjamenn sýnt að þeir eru ekki viljugir til að breyta um forseta á stríðstímum og gætu því allt eins haldið sig við Bush. Kerry er nú á leið til Wisconsin, sem er eitt af lykilríkjunum, en þaðan mun hann halda til Boston þar sem hann mun bíða úrslitanna. George Bush greiddi atkvæði sitt í Crawford í Texas í morgun og mun á leið sinni til Washington koma við í Ohio.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×