Erlent

Uppstokkun í stjórn Bush

John Ashcroft dómsmálaráðherra og Don Evans viðskiptaráðherra urðu fyrstu ráðherrarnir til að segja af sér eftir endurkjör George W. Bush Bandaríkjaforseta. Fyrir lá að einhverjar breytingar yrðu gerðar á ráðherraskipan fyrir seinna kjörtímabil Bush og var Ashcroft meðal þeirra sem búist var við að myndu láta af störfum. Viðbúið er að fleiri fari sömu leið og Ashcroft og Evans á næstunni. Líklegastir til þess eru taldir Colin Powell utanríkisráðherra og John Snow fjármálaráðherra. Alberto Gonzales, sem hefur fylgt Bush frá ríkisstjóraárum hans í Texas, verður næsti dómsmálaráðherra að því er AP-fréttastofan hafði eftir heimildamönnum. Gonzales, sem hefur löngum verið orðaður við sæti í Hæstarétti, lék lykilhlutverk í stefnumótun fyrir forsetann um hversu langt mætti ganga í baráttunni gegn hryðjuverkum. Hann skrifaði minnismiða sem réttlætti að fangar í stríðinu gegn hryðjuverkum yrðu ekki verndaðir af alþjóðasáttmálum og lögum sem banna pyntingar. Ashcroft var umdeildur, íhaldssamur, mjög trúaður, til hægri í Repúblikanaflokknum og var gagnrýndur fyrir að ganga á mannréttindi í störfum sínum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×