Innlent

Ágreiningurinn ekki úr sögunni

Forysta Framsóknarflokksins og Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður flokksins, sem vikið var úr öllum nefndum flokksins í fyrrahaust, náðu sáttum á sérstökum fundi í gærkvöldi. Jafnframt var ákveðið að Kristinn tæki aftur sæti í sjávarútvegsnefnd og umhverfisnefnd, sem varaformaður í þeim báðum, og í Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA. Það eru að vísu færri nefndir en Kristinn sat í áður en nefndaseta þingflokksmanna Framsóknarflokksins verður stokkuð upp í haust. Þegar Kristinn var spurður um það í Íslandi í bítið í morgun hvort allur málefnaágreiningur væri þar með úr sögunni í flokknum sagði Kristinn svo ekki vera, heldur hefði flokksforystan komist að raun um að vandi flokksins væri ekki vegna málefna hans. Og hann nefnir tvær mögulegar skýringar á vandanum að hans mati: Annnars vegar að þeir kjósendur Framsóknarflokksins sem séu félagslega sinnaðir séu orðnir þreyttir á hina langa stjórnarsamtarfi með Sjálfstæðisflokknum. Hins vegar sé vart þreytu gagnvart ríkisstjórninni í heild vegna þess hve lengi hún hafi verið við völd. Eins og fram hefur komið voru ýmsir stuðningsmenn Kristins í kjördæmi hans afar óhressir með brottvikningu hans úr nefndum og samkvæmt heimildum fréttastofu mun flokksforystan hafa óttast að það kynni að raska framvindu mála á komandi flokksþingi, ef öldur hefði ekki lægt fyrir þingið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×