Erlent

Þvert á skilmála friðarvegvísisins

Þrjú þúsund og fimm hundruð ný heimili verða byggð fyrir ísraelska landnema á hernumdum svæðum á næstunni, þvert á skilmála friðarvegvísisins. Palestínumenn segja Ariel Sharon þannig hrinda hugmyndum um Stór-Ísrael í framkvæmd. Sharon heimilaði byggingu tveggja stórra hverfa á hernumdu landi á Vesturbakkanum í síðustu viku, samkvæmt fréttum ísraelskra fjölmiðla. Tilgangurinn er að tengja eina af stærri landnemabyggðum gyðinga þar við Jerúsalem. Þetta er sagt vera hluti áætlunar Sharons um Stór-Jerúsalem en Ísraelsmenn hertóku borgina í stríðinu árið 1967 og vilja að borgin tilheyri Ísraelsríki. Palestínumenn vilja hins vegar að Jerúsalem verði höfuðborg sjálfstæðs ríkis Palestínumanna. Hefji Ísraelsmenn byggingu frekari landnemabyggða á Vesturbakkanum herða þeir um leið tökin á Jerúsalem. Fréttaskýrendur á svæðinu segja að svo virðist sem þetta brjóti í bága við ákvæði friðarvegvísisins svokallaða og forsvarsmenn Palestínumanna segja þetta benda til þess að Sharon hafi í hyggju að reyna að skipta á Gasa-ströndinni og svæði til að koma á fót „Stór-Ísrael“.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×