Innlent

Nýjar aðgerðir á Landspítalanum

Þeir sjúklingar sem eru með op á milli hjartagátta geta nú farið í aðgerð á Landspítalanum í stað þess að þurfa að fara í aðgerð til útlanda. Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur tryggt Landspítalanum fé svo framkvæma megi aðgerðirnar hér á landi. Spítalinn fær tæplega fimm milljóna króna tímabundið stofnframlag og sérstakt framlag á árinu svo hægt verði að veita þeim sjúklingum þjónustu, sem þurfa að fara í aðgerðina nú. Kostnaðurinn við að senda sjúkling í sambærilega aðgerð til útlanda er talinn fjórfalt meiri en að framkvæma aðgerðina hér samkvæmt þeim áætlunum sem liggja fyrir á Landspítalanum. Gert er ráð fyrir að um sex sjúklingar þurfi að fara í aðgerðir af þessu tagi árlega, fyrir utan þá sem beðið hafa eftir aðgerð upp á síðkastið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×