Innlent

Vill snarpa og málefnalega baráttu

"Ég vil hefja stutta baráttu, snarpa, málefnalega og drengilega," sagði Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, í gær þegar kosningaskrifstofa hans, sem hann kýs að kalla starfsstöð, var opnuð að Ármúla 40. Formannsslagur Samfylkingar stendur á milli þeirra Össurar og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur en hún opnaði kosningaskrifstofu sína 9. mars. Össur segist ætla að sannfæra kjósendur sína með því að leggja fram störf sín og stefnu auk þeirra breytinga sem hann vilji gera á innra starfi flokksins. "Ég vil halda áfram að efla beint lýðræði innan flokksins eins og er gert með þessari beinu formannskosningu og var gert með Evrópukosningunni." Þá segist Össur vilja láta kjósa framkvæmdastjóra beint á landsfundi. Össur segist bjartsýnn þrátt fyrir að hann hefji kosningabaráttu sína seint, þó að segja megi að tíminn sé svipaður og allt pólitíska sviðið í Bretlandi og Danmörku noti í kosningabaráttu. Landsfundur Samfylkingarinnar hefst 20. maí og verða úrslit formannskosninganna tilkynnt daginn eftir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×