Innlent

Meirihlutinn heldur líklega

Töluverðar líkur eru á því að meirihlutasamstarf framsóknarmanna og sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Grundarfjarðar hefjist að nýju en slit urðu á samstarfinu 23. mars síðastliðinn. Þetta kemur fram í máli Gísla Ólafssonar, varaforseta bæjarstjórnar og fulltrúa Framsóknar í bæjarstjórn. Samstarf hefur verið með flokkunum í ellefu ár en upp úr slitnaði þegar ósamkomulag myndaðist vegna skipulagsmála varðandi leikskóla. Segir Gísli að Framsóknarflokkurinn hafi viljað láta fara betur yfir öll rök fyrir viðbyggingu leikskóla sem áður hafði verið samþykkt. Hins vegar hafi sjálfstæðismenn ekki viljað láta endurskoða fyrri ákvörðun. Að sögn Gísla höfnuðu hinir listarnir í bæjarstjórn viðræðum um meirihlutasamstarf. Því neyðist sjálfstæðis- og framsóknarmenn til að setjast niður og komast að samkomulagi um þetta mál en fundur verður haldinn á þriðjudag. Gísli segist bjartsýnn á að samstarf flokkanna hefjist að nýju.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×