Innlent

Sundabraut ekki á vegaáætlun

Engar framkvæmdir eru ráðgerðar vegna Sundabrautar í nýrri samgönguáætlun til næstu fjögurra ára sem kynnt verður á næstunni. Gert er ráð fyrir að verkhönnun hefjist þegar lega brautarinnar hefur verið ákveðin, auk þess sem ákveða skal tilhögun fjármögnunar verksins en um frekari aðgerðir verður ekki að ræða. Guðmundur Hallvarðsson, formaður samgöngunefndar Alþingis, segir ýmsar ástæður fyrir því að Sundabrautin sé ekki á þessari nýju áætlun. "Það er gert ráð fyrir að undirbúningsvinna öll fari af stað á tímabilinu en þar sem þarna er um að ræða afar kostnaðarsama aðgerð og fyrirséð er að öll frumvinna taki tvö til þrjú ár var ákveðið að setja hana ekki í þá áætlun sem hér um ræðir enda nær hún aðeins til næstu fjögurra ára." Í áætluninni er lagt til að gerðar verði endurbætur á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar en ekki er gert ráð fyrir fjárveitingu til þess fyrr en á næsta ári. Ekki er gert ráð fyrir mislægum gatnamótum að svo stöddu, heldur skal fjölga akreinum og breyta ljósastýringu. Að sögn Guðmundar hefur Vegagerðin gert úttekt á gatnamótunum og tillögur samgönguráðherra bera keim af niðurstöðum þeirra. "Þeir telja að með þessum aðgerðum sé hægt að ráða einhverja bót á þeim gatnamótum. Þau verða hættuminni og einnig ætti umferð að ganga hraðar og betur." Guðmundur viðurkennir þó að slíkar framkvæmdir séu í besta falli tímabundin lausn. "Með tilliti til þess hversu hættuleg þessi gatnamót eru hefði verið eðlilegra að fara í stærri framkvæmdir enda sýnt að vandamálið verður áfram til staðar og verður jafnvel enn stærra þegar hugmyndum um mislæg gatnamót verður hrint í framkvæmd."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×