Innlent

Vildi ekki verða veðurtepptur

Varautanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem ætlaði að eiga fund með Davíð Oddssyni utanríkisráðherra í dag, hætti við komu sína til Íslands á síðustu stundu þar sem hann var hræddur um að verða innlyksa á Íslandi vegna veðurs. Robert Zoellick er hægri hönd Condoleezzu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Hann er talinn afar harður í horn að taka, er harðsnúinn samningamaður og talsmaður þess að Bandaríkin stýri alþjóðamálum í skjóli hernaðaryfirburða sinna. Rice lýsti því yfir skömmu eftir að hún tók við embætti að hún eða Zoellick myndu heimsækja höfuðborgir allra landa Atlantshafsbandalagsins og Zoellick hefur verið að gera einmitt það. Hann hefur nú heimsótt höfuðborgir flestra Evrópulanda og ætlaði að koma við á Íslandi á leið sinni heim til Bandaríkjanna. Á leiðinni hingað leist flugmönnum hans hins vegar ekki betur en svo á veðurspána síðla dags, en spáð er 25 metrum á sekúndu, að þeir töldu hættu á að það yrði of mikill hliðarvindur til að hægt væri að taka á loft aftur. Zoellick óttaðist því að verða innlyksa á Íslandi um óákveðin tíma vegna veðurs og komast ekki í útför Jóhannesar Páls páfa í Róm á föstudaginn. Því var fundinum með Davíð aflýst. Ekki hefur verið boðað til nýs fundar en þó er búist við að Zoellick reyni aftur að koma til Ísland eftir um það bil hálfa mánuð. Líklegt er að þeir Davíð hafi um mikið að spjalla; ekki aðeins er varnarsamningur landanna tveggja í lausu lofti heldur hefur koma Fischers hingað til lands hleypt illu blóði í Bandaríkjastjórn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×