Innlent

Ríkið hækkar álögur á bensín

"Það nær í raun ekki nokkurri átt að ætla sér að hækka bensíngjaldið á þessum tímapunkti," segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðareigenda. Fram kemur í nýrri samgönguáætlun að gjald það sem ríkið leggur á hvern lítra bensíns mun hækka um 6 til 7 prósent þann fyrsta júlí. Innan við tvö ár eru síðan bensíngjaldið var hækkað síðast í nóvember 2003 og fer nú tæp 31 króna af verði hvers bensínlítra til ríkisins. Gjaldið mun hækka um tvær krónur og ennfremur er gert ráð fyrir að bensíngjaldið hækki í takt við verðlagsþróun allt fjögurra ára vegáætlunartímarbilið. Er ástæðan hækkunarinnar sú að vega þurfi upp á móti minni tekjum ríkisins þegar þungaskattskerfið verður afnumið í júlí en áætlanir gera ráð fyrir að olíugjald það sem í staðinn komi skili ekki sömu tekjum. Runólfur segist ekkert skilja í yfirvöldum með þessari aðgerð. "Það skýtur skökku við að þegar verið er að innleiða kerfi sem er þjóðhagslega jákvæðara eins og verið er að gera með olíugjaldinu í stað þungaskatts að þá rísi upp annar angi ríkisins sem telur sig verða fyrir tekjutapi og þurfi að fá það bætt. Vegaskatturinn er eyrnamerkt skatttekja en ríkið hefur í fortíðinni klipið af þeim tekjum til nota annars staðar og ekki má gleyma þessu svokallaða vörugjaldi sem eru 11 krónur í viðbót af hverjum lítra bensíns og rennur í alls óskyld verkefni." Þannig mun ríkið fá beint 44 krónur af verði hvers lítra í byrjun júlí og eru þá ekki talin önnur gjöld, tollar og virðisaukaskattur sem einnig leggst á eldsneyti en allar erlendar spár gera ráð fyrir áframhaldandi verðhækkunum á eldsneyti á heimsmörkuðum á komandi mánuðum og árum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×