Innlent

Sökuð um byggðaeyðingarstefnu

Opinberum störfum við stjórnsýslu fjölgaði um tólf prósent á landsbyggðinni og um tvö prósent á höfuðborgarsvæðinu á fimm ára tímabili. Þetta kom fram í máli forsætisráðherra á Alþingi í dag þegar hann svaraði ásökunum um að ríkisstjórnin stæði fyrir byggðaeyðingarstefnu.  Sigurjón Þórðarson, þingmaður Frjálslynda flokksins, stóð fyrir utandagkrárumræðu um misræmi á milli fjármögnunar og umsvifa hins opinbera eftir landsvæðum. Hann sagði að það hefði verið rekin byggðaeyðingarstefna í landinu. Komið hefði verið á kvótum og höftum á atvinnuvegi landsbyggðarinnar og svo væri búið að blása út ríkisbáknið. Allt legðist á eitt svo landsbyggðinni blæddi. Forsætisráðherra svaraði hins vegar með því að birta nýlegar tölur um fjölgun opinberra starfsmanna. Hann sagði að í opinberri stjórnsýslu hefði þeim fjölgað um 7 prósent á árunum 1998-2003, þar af um 2 prósent á höfuðborgarsvæðinu en 12 prósent utan þess. Hann nefndi einnig að heilbrigðisstarfsmönnum hefði fjölgað um 13 prósent á höfuðborgarsvæðinu en um 17 prósent utan þess. Fræðslustörfum hefði fjölgað um 34 prósent á höuðborgarsvæðinu en um 25 prósent utan þess. Það voru hins vegar ekki allir ráðherrar sem vildu stæra sig af fjölgun opinberra starfsmanna. Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra sagðist vilja taka undir með Sigurjóni að stöðugur vöxtur hins opinbera væri áhygguefni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×