Innlent

Óttast afleiðingar við sölu sjóðs

Einhver banki eða peningastofnun mun eignast fyrsta veðrétt í nær öllum bújörðum hér á landi ef hugmyndir um að selja Lánasjóð landbúnaðarins á almennum peningamarkaði ná fram að ganga. Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri - grænna, vakti athygli á þessu og hugsanlegum afleiðingum í utandagskrárumræðu um málið á Alþingi í morgun, en sjóðurinn er opinber sjóður sem bændur hafa byggt upp með greiðslum og nýtur ríkisábyrgðar. Jón sagði að bændum hefði brugðið þegar tilkynnt hefði verið í fréttum Ríkissjónvarpsins 30. mars að ríkisstjórnin hefði ákveðið að selja lánasjóðinn og að svo kynni að fara að viðskiptabanki í eigu hinna ýmsu eignarhaldsfélaga, fjársterkra einstaklinga eða fyrirtækjasamsteypna eignaðist fyrsta veðrétt í nánast öllum jörðum á Íslandi. Fyrsti veðréttur á öllum jörðum í höndum bankastofnana sem eingöngu hugsuðu um tímabundinn gróða gæti á skömmum tíma gjörbreytt eignarhaldi á jörðum og búsetumynstri í landinu. Jón sagðist ekki viss um að það væri vilji þjóðarinnar. Samkvæmt heimildum fréttastofu Bylgjunnar hefur sjóðurinn verið mjög sveigjanlegur í innheimtu á lánum, langt umfram það sem nú tíðkast á peningamarkaðnum og óttast nú ýmsir að með harðari innheimtuaðgerðum kunni fjölmargar bújarðir að falla í hendur nýrra eigenda ef sjóðurinn verði seldur. Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra skipaði um síðustu áramót starfshóp til að fara yfir mál sjóðsins í ljósi nýrrar og gjörbreyttrar stöðu á almenna fjármálamarkaðnum. Hann fullvissaði Jón Bjarnason að fullt samráð yrði haft við bændur um allar breytingar og meðal annars yrði skoðaður sá möguleiki að eignir sjóðsins umfram skuldbindingar rynnu í Lífeyrissjóð bænda ef til sölu kæmi. Hann óttaðist ekki að hagsmunum bænda yrði stefnt í voða þótt nýr eigandi eignaðist fyrsta verðrétt í fjölda bújarða því nú væru sumir bændur þegar farnir að greiða upp lán sín við sjóðinn með öðrum hagstæðari lánum og á hann þar væntanlega við vel stæða bændur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×