Innlent

Vilja styrkja stöðu hjóna

Hið opinbera hvetur fólk til að skilja, segja fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem flytja þingsályktunartilögu um að styrkja stöðu hjóna og sambúðarfólks. Þingmennirnir vilja að nefnd verði skipuð til að kanna stöðu hjóna og sambúðarfólks með börn á framfæri með tilliti til skatta og bóta og bera hana saman við stöðu einstæðra foreldra. Kannað verði hvort brögð séu að því að fólk skilji eða slíti sambúð til málamynda í því skyni að njóta fjárhagslegs hagræðis í kerfinu. Einnig verði kannað hvernig megi styrkja stöðu hjóna og sambúðarfólks. Fyrsti flutningsmaður, Guðmundur Hallvarðsson, segir tilefnið upplýsingar frá prestum í Reykjavík. Þeir hafi orðið varir við það að hjón skilji til þess að hafa fé út úr kerfinu. Þá segist Guðmundur telja að það sé nauðsynlegt og eðlilegt að styrkja hornstein samfélagsins, sem sé hjónabandið, þannig að það sé eftirsóknarvert að fólk gangi frá málum sínum fljótt þegar það hafi ákveðið að rugla saman reytum. Guðmundur segir opinberar tölur sýna að stór hluti para í sambúð dragi það í lengstu lög að ganga í hjónaband. Fólk flýti sér ekki í hjónaband vegna þess að það séu einhver ytri skilyrði sem geri það að verkum að tekjuhliðin breytist mjög, en það eigi auðvitað ekki að gerast.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×