Innlent

Undirbýr leyfi til olíurannsókna

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að hefja undirbúning að því að veita olíufyrirtækjum leyfi til rannsókna og vinnslu á olíu á landgrunni Íslands. Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra lagði fram greinargerð um málið á ríkisstjórnarfundi í dag og samþykkti ríkisstjórnin áætlun sem gerir ráð fyrir að nauðsynlegum undirbúningi til að bjóða fram leyfi verði lokið í ársbyrjun 2007. Samkvæmt því gætu boranir við Ísland í fyrsta lagi hafist árið 2009. Í greinargerð iðnaðarráðherra segir að ekki sé ljóst hvort olíuauðlindir sé að finna á Jan Mayen svæðinu, sem horft verði til fyrst í stað, en mælingar hafi gefið jákvæðar vísbendingar og erlend olíufyrirtæki sýni svæðinu vaxandi áhuga. Endanlegt svar fáist ekki nema með borunum sem séu mjög kostnaðarsamar og með ákvörðun ríkisstjórnarinnar sé verið að undirbúa næsta skref, það er að veita olíufyrirtækjum leyfi til borana. Móta þarf leyfisskilmála og gera ýmsar breytingar á lagaumhverfinu og huga sérstaklega að umhverfisvernd og mengunarvörnum í því sambandi. Í greinargerð iðnaðarráðherra er bent á að áhuginn hafi enn sem komið er verið mestur hjá minni olíuleitarfyrirtækjum sem tæpast hafi bolmagn til þess að standa sjálf fyrir borunum en fagmenn meti það svo að raunverulegur áhugi á borunum geti skapast hjá stórum alþjóðlegum fyrirtækjum innan fárra ára.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×