Innlent

Þörf á ungliðum í forystusveit

Ágúst Ólafur Ágústsson þingmaður býður sig fram til varaformanns Samfylkingarinnar. Ákvörðun sína tilkynnti hann opinberlega í gær og tók þar með áskorun framkvæmdastjórnar Ungra jafnaðarmanna. "Ég tel rétt að ný kynslóð eignist fulltrúa í forystusveit Samfylkingarinnar, enda er meira en helmingur Íslendinga undir 35 ára aldri. Mér finnst mikilvægt að þessi kynslóð eigi að minnsta kosti einn fulltrúa í fremstu röð." Ágúst kveðst ekki taka afstöðu til frambjóðendanna tveggja í formannsslag Samfylkingarinnar. "Ég met Össur Skarphéðinsson og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur bæði mjög mikils, en býð mig fram á eigin forsendum. Barátta þeirra getur hleypt lífi í flokkinn og styrkt hann. En stuðningsmenn þeirra mega ekki tala flokkinn niður. Þeir verða að virða hverjir aðra og flokkinn sjálfan. Fleiri hafa ekki boðið sig fram til varaformanns Samfylkingarinnar enn sem komið er. Jóhanna Sigurðardóttir, Kristján Möller, Lúðvík Bergvinsson, Guðmundur Árni Stefánsson og Lúðvík Geirsson hafa þó öll verið orðuð við varaformannsembættið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×